Fyrsta húsið í sextán ár rís í Súðavík

Frá vinnu við raðhúsið í Súðavík.
Frá vinnu við raðhúsið í Súðavík. Ljósmynd/Aðsend

Stefnt er á að smíði fyrsta hússins í Súðavík í sextán ár verði lokið um miðjan júní. Um er að ræða raðhús með fimm íbúðum og stendur það við Grundarstræti við hliðina á stjórnsýsluhúsi bæjarins.

Að sögn Braga Þórs Thoroddsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, mun tíminn leiða í ljós hvort farið verður í áframhaldandi uppbyggingu í bænum. Áform eru uppi um að byggja kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði í samstarfi við Íslenska kalkþörungafélagið og ef það gengur eftir verður þörf fyrir frekara húsnæði.

Hefur mikla þýðingu 

Bragi Þór bendir á að megnið af bænum hafi verið endurreist eftir snjóflóðið árið 1995 en að lítið hafi verið byggt í seinni tíð. „Þetta er gríðarlega skemmtilegt skref fyrir okkur. Ég held að það hafi rosalega mikla þýðingu að sjá eitthvað rísa á svæðinu. Þetta hefur verið kalt svæði í byggingarlegu tilliti,“ segir hann.

Kraftur komst í málið síðasta vor eftir samtal við byggingarfélagið Hrafnshól sem kynnti fyrir þeim áform um að byggja á landsbyggðinni, sem tengdust breytingum á útlánareglum Íbúðalánasjóðs, að sögn Braga. 

Aðspurður segir hann að hver sem er geti keypt íbúðirnar en nefnir þó að einhverjar verði fyrir eldra fólk ef eftirspurnin verður næg. Í staðinn ætlar bærinn að selja íbúðir fyrir eldra fólk á Hlíf 2 í Torfsnesi á Ísafirði.

Líklegt er að nýja raðhúsið verði tilbúið um miðjan júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert