„Ef löggan kemur gefum við þeim í glas“

Sigfríður er 100 ára í dag.
Sigfríður er 100 ára í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

„Ef löggan kemur gefum við þeim í glas,“ segir Sigfríður Nieljohníusdóttir í samtali við mbl.is. Hún er 100 ára í dag, það var ekkert annað í stöðunni en að halda partí og eins og öllum ærlegum fögnuði sæmir, fylgdu veisluhöldunum flugeldar.

Það eru flugeldarnir sem fá Sigfríði til að velta vöngum yfir afskiptum lögreglu af samsætinu, en ekki tilmæli almannavarna um samkomutakmarkanir. Öllum reglum á því sviði var enda fylgt.

„Hér voru bara 50 manns þó að miklu, miklu fleiri hafi viljað koma. Allir voru auðvitað með tvo metra á milli sín enda verður það að vera. Síðan var ég ekkert að kyssa eða knúsa neinn, heldur legg ég bara hönd á hjartað og ég sagði við gestina mína í dag: Ósk mín er að þið eigið alla daga bjarta,“ segir Sigfríður.

Hefði ekki viljað sofa alla öldina

Það var skálað í kampavíni í sólinni í dag í garðinum við húsið í Hólmgarði í Fossvogi, þar sem Sigfríður hefur búið í 60 ár. „Þetta var svo yndislegur dagur, himinninn heiðskír og sólin skein og trén blómstra. Ég er stórlukkuleg og skil ekkert í þessu hvað er mikið gert með 100 árin hjá mér, en þetta kemur víst ekki aftur. Aumingja Þyrnirós, sem svaf öll 100 árin, að ímynda sér ef ég hefði sofið alla öldina, það hefði ég ekki viljað,“ segir Sigfríður.

Veislan var haldin úti á palli í Hólmgarði. Fánar, blöðrur …
Veislan var haldin úti á palli í Hólmgarði. Fánar, blöðrur og flugeldar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Afkomendur Sigfríðar héldu henni veisluna í garðinum í dag en fjöldi manna sendi henni kveðju vegna afmælisins. „Ég verð líka að fá að þakka öllum þeim sem hafa auðsýnt mér vináttu á afmælinu, það er vonlaust fyrir mig að ná að hringja í þá alla,“ segir hún.

Gjöf til ömmu Fríðu

Barnabarns Sigfríðar er Þórir Júlíusson og besti vinur hans er landsliðsmaðurinn Kári Árnason. Þeir Víkingar voru heimagangar heima hjá Sigfríði í Hólmgarðinum alla tíð og Kári lagði leið sína í veisluna í dag til að votta virðingu sína Víkingsömmunni. Hún fékk veglega treyju að gjöf.

„Ég fór í þessa fínu treyju sem hann skenkti mér stórfrægur maðurinn,“ segir Sigfríður. „Svona er maður bara aldeilis þekkt hjá öllum þessum helstu.“

Sigfríður fékk treyju merkta Hólmgarði í 100 ára afmælisgjöf og …
Sigfríður fékk treyju merkta Hólmgarði í 100 ára afmælisgjöf og það var ekki hver sem er sem afhenti henni hana. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Kom víða við

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í dag að Sigfríður er 82 ára stúdent. Hún var á sínum tíma í stjórn Kvenstúdentafélagsins, fór í læknisfræði í Háskóla Íslands og lærði auk þess ensku og þýsku þar til ensku og þýsku sendikennararnir voru kallaðir í herinn ári síðar. Þá fór hún að vinna á skrifstofu hjá Stefáni Thorarensen apótekara og kynntist þar verðandi eiginmanni sínum, Guðmundi B. Ársælssyni, síðar póstfulltrúa, sem andaðist 1995. Síðar vann hún við ýmislegt, m.a. hjá Fiskimálasjóði 1968-1990.

Sigfríður og börn hennar Ólöf sjúkraþjálfari og Ársæll, skólameistari í …
Sigfríður og börn hennar Ólöf sjúkraþjálfari og Ársæll, skólameistari í Borgarholtsskóla. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hún hefur búið í sama húsnæði í 60 ár. „Hérna ólum við upp börnin okkar þrjú, en annar sonur okkar, Júlíus lögfræðingur, er látinn.“ Hin eru Ólöf sjúkraþjálfari og Ársæll, skólameistari í Borgarholtsskóla. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin sjö. „Það er hundleiðinlegt að vera í sóttkví og þegar börnin koma í heimsókn spritta þau sig í bak og fyrir, setja á sig hanska og standa fimm metra frá mér. Ég er ekkert að spritta mig enda má ég ekki koma við neinn, bara vinka.“

mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert