Til skoðunar að seinka opnun skemmtistaða

Þórólfur sagði að ekki þyrfti mikið ímyndunarafl til að sjá …
Þórólfur sagði að ekki þyrfti mikið ímyndunarafl til að sjá að á svona stöðum, þar sem fólk hrúgast saman og passar sig ekki, séu kjöraðstæður fyrir veiruna. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur talsverðar áhyggjur af því að hópsýkingar geti komið upp við opnun skemmtistaða, líkt og gerst hefur í Suður-Kóreu og Þýskalandi, og segir að eitt af því sem verið sé að skoða hérlendis sé hvort bíða eigi með að opna skemmtistaði.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Sagðist Þórólfur þó ekki hafa tekið ákvörðun um neitt slíkt fyrir sitt leyti, en að ekki þyrfti mikið ímyndunarafl til að sjá að á svona stöðum, þar sem fólk hrúgast saman og passar sig ekki, séu kjöraðstæður fyrir veiruna.

Til að koma í veg fyrir aðra bylgju faraldursins skiptu einstaklingssóttvarnir mestu máli og að fólk sem væri að drekka mikið passaði sig líklega síður á sóttvörnum og nándarreglu.

Þá sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í lok fundar að mikilvægt væri að muna af hverju við værum að þessu og hvatti skipuleggendur viðburða til að staldra við og spyrja sig hvort nauðsynlegt væri að viðburðirnir færu fram núna eða hvort hugsanlegt væri að aflýsa eða fresta þeim.

„Munum samfélagssáttmálann. Þetta verkefni er áfram í okkar höndum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina