Fara fram á frekari sýnatökur í Fossvogsskóla

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla vegna rakaskemmda.
Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla vegna rakaskemmda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrafélag Fossvogsskóla er ósátt vegna þess að ekki eigi að taka sýni úr húsnæði skólans eins og gert var síðastliðið vor þegar í ljós komu viðamiklar skemmdir og ráðist var í víðtækar framkvæmdir í kjölfarið. Þá hefur félagið ráðið til sín lögfræðing til að krefjast svara frá borginni.

„Þegar málið kemur upp síðastliðið vor, fyrir rúmlega ári síðan, gerist það eftir mjög viðamiklar sýnatökur og þá kemur í ljós að það er eitthvað virkilega mikið að húsnæðinu. Svo fara þeir í alls konar framkvæmdir og þegar við köllum eftir því að það verði tekin sams konar sýni úr húsnæðinu, vegna þess að börn og starfsfólk eru enn að veikjast, þá er því hafnað og vísað á Heilbrigðiseftirlitið. Skemmdirnar komu ekki fram í úttekt Heilbrigðiseftirlitsins, ekki í loftsýnaúttekt sem gerð var nokkrum vikum síðar, heldur þegar Verkís fór í umfangsmiklar sýnatökur af efni. Heilbrigðiseftirlitið hafði gefið út heilbrigðisvottorð örfáum vikum áður en þetta kemur allt í ljós og húsnæðið er rýmt,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður Foreldrafélags Fossvogsskóla, í samtali við mbl.is.

Segir foreldra hafa verið hunsaða

Karl segir að gott samráð og upplýsingaflæði hafi verið milli framkvæmdaaðila, borgarinnar og fulltrúa skólans framan af en klippt hafi verið á samráð þegar fyrstu kvartanir fóru að berast um að börn væru enn að veikjast síðastliðið haust. „Síðan þá hafa foreldrar verið hunsaðir í þessu máli. Við eigum börnin sem verða lögum samkvæmt að mæta þarna á hverjum degi lungann úr árinu og við teljum hreinlega að borgaryfirvöldum beri að tala við okkur beint. Við berum ábyrgð á þessum börnum og þeirra heilsu til framtíðar og langtímaáhrif af því að vera í rakaskemmdu umhverfi eru ekki þekkt, en við viljum að börnin njóti þess vafa þannig að menn fari ekki út úr framkvæmdunum án þess að vera fullvissir um að verkefninu sé lokið.“

Foreldrafélagið hefur gripið til þess ráðs að ráða sér lögfræðing til þess að fá borgina til að krefjast svara, en Karl segir að erindi hafi fyrst verið sent borginni í nóvember en loks hafi borist svar í lok apríl. „Okkur var einfaldlega ekki svarað með neinum efnislegum hætti þangað til við fengum lögfræðing í málið. Þá fór boltinn fyrst að rúlla. Það er búið að eyða heilli önn í þögn á meðan hægt hefði verið að leysa málin,“ segir Karl.

Svari með hrafnasparki

Þau hafi svo loks fengið svar 30. apríl síðastliðinn. „Þá er það bara snúðugt svar sem segir að við eigum enga beina aðkomu að þessu máli og Heilbrigðiseftirlitið sé fullfært um að dæma í eigin sök og svo er okkar punktum svarað á óskiljanlegan hátt. Rakaleysið er með ólíkindum og mann setur hljóðan að það taki einn stærsta vinnuveitanda landsins tvo mánuði að svara með þessu hrafnasparki.“

„Við sendum því svarbréf til baka til þeirra í dag þar sem við rekum til baka rangfærslur í þessu bréfi og förum enn og aftur með skýrum rökum fram á að frekari sýnataka verði gerð, að Heilbrigðiseftirlitið komi ekki að þeirri úttekt heldur fagaðili sem hefur tól og tæki til, og að haft verði samráð við okkur svo við séum á sama báti en ekki að róa í sitthvora áttina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert