Ferðamenn hafi val frá 15. júní

Blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu um afléttingu ferðatakmarkana.
Blaðamannafundur ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu um afléttingu ferðatakmarkana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórn Íslands hefur, að ráðleggingum sóttvarnalæknis, ákveðið nýjar reglur um sóttkví sem gilda munu frá 15. maí. Um er að ræða útvíkkun á sóttkví B og mun hún ná til allra þeirra sem hingað koma til að starfa við ákveðin verkefni.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu við Hverfisgötu rétt í þessu. 

Þar kynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afléttingu ferðatakmarkana. Frá og með 15. maí verða Færeyjar og Grænland einnig tekin af lista yfir hááhættusvæði.

Sýnataka á Keflavíkurflugvelli

Þá sagði Katrín að stefnt væri að því að eigi síðar en 15. júní geti allir ferðamenn, sem og Íslendingar, sem hingað koma valið um að fara í sóttkví, fara í skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli eða framvísa vottorði sem samþykkt er af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Þá verði fólki gert að fá sér smitrakningarapp almannavarna.

Þó sagði forsætisráðherra að að sjálfsögðu byggðust þessar ákvarðanir á því að allt gengi upp.

Á næstu dögum verður farið í hagræna greiningu á aðgerðunum, sem væru umfangsmiklar, en sagði Katrín að samfélagið væri vel í stakk búið til að ráðast í þær. Þá gæti svo viðamikil skimun meðal allra sem hingað koma verið gott tækifæri til að læra meira um veiruna og útbreiðslu hennar. Þeim upplýsingum væri svo hægt að deila með heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert