Ný flugfélög væru góð viðbót við markaðinn

Staða Icelandair skiptir ferðaþjónustuna miklu máli.
Staða Icelandair skiptir ferðaþjónustuna miklu máli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög jákvætt ef aðilar geta stigið fram og hafið farþegaflug. Ég held að það geti verið mjög góð viðbót við núverandi markað,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Nefnir hann flugfélögin Bláfugl (e. Bluebird Nordic) og Play í því samhengi.

Líkt og ViðskiptaMogginn greindi frá á miðvikudag hafa forsvarsmenn Bláfugls sagst reiðubúnir til að fylla skarð Icelandair tímabundið, fari svo að síðarnefnda félagið verði gjaldþrota. Þá hefur sömuleiðis verið haft eftir stjórnarmönnum Play að félagið geti verið komið með eina til tvær vélar í loftið með skömmum fyrirvara beri svo undir.

Að sögn Jóhannesar koma félögin tvö ekki í stað Icelandair þó að þau geti haldið uppi flugsamgöngum til og frá landinu tímabundið. Það taki jafnframt langan tíma að byggja upp jafn öflugt fyrirtæki og Icelandair. „Það er auðvitað mjög jákvætt ef aðilar geta stigið fram og hafið farþegaflug. Play hefur ákveðnar forsendur núna en Bláfugl hefur kannski aðeins minni reynslu af því. Við þurfum þó að varast það að hvorugt þessara félaga getur stigið alfarið inn fyrir Icelandair,“ segir Jóhannes og bætir við að Icelandair hafi byggt upp öflugt leiðar- og sölukerfi. Þá sé fyrirtækið mikilvægasta fyrirtæki ferðaþjónustunnar og slíkt skarð verði ekki fyllt á augabragði.

„Í fyrra flutti Icelandair 60-70% þeirra sem hingað komu sem ferðamenn. Við sáum hvað fyrirtækið er öflugt þegar WOW hvarf af markaðnum. Þeir nýttu sveigjanleika sinn þannig að þeir gátu tekið meira af ferðamönnum til Íslands,“ segir Jóhannes, sem ítrekar að mörg ár taki að byggja upp sams konar kerfi og Icelandair býr nú yfir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert