Umfangsmikið en raunhæft verkefni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir nauðsynlegt að viðhalda þeim árangri …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir nauðsynlegt að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur hér á landi í sóttvörnum en einnig að koma efnahagslífinu aftur í gang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þessi niðurstaða sýni okkur að það sé raunhæft að ráðast í skimun á landamærum. Það er auðvitað ýmislegt sem þarf að koma til áður og við vissum að þetta yrði umfangsmikið verkefni en að sama skapi eðlilegt næsta skref, bæði fyrir efnahagslífið og frelsi Íslendinga.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is spurð um niðurstöðu skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum landsins.

Verk­efn­is­stjórn­in var skipuð á grund­velli til­lögu heil­brigðisráðherra og dóms­málaráðherra um að stefna að því að bjóða komuf­arþegum upp á mögu­leik­ann á sýna­töku við kom­una til lands­ins í stað þess að sæta 14 daga sótt­kví eða að fram­vísa vott­orði sem sótt­varna­lækn­ir met­ur gilt. Sá kost­ur á að standa til boða eigi síðar en 15. júní

Niðurstaðan er sú að það sé fram­kvæm­an­legt að hefjast handa við skimun á landa­mær­um en að leysa þurfi úr mörg­um verkþátt­um áður en það verk­efni fer af stað.

Varfærin leið á okkar forsendum

Það kemur meðal annars fram í skýrslunni að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans geti unnið úr 500 sýnum á dag en óvissa ríki um mögulegan fjölda komufarþega til landsins.

Áslaug Arna segir nauðsynlegt að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur hér á landi í sóttvörnum en einnig að koma efnahagslífinu aftur í gang. Mörg ríki séu að boða opnanir landamæra nú í sumar. Þessi leið sé bæði varfærin og á okkar forsendum.

„Það eru ekki forsendur fyrir að áætla hversu margir ferðamenn munu koma hingað en það er nauðsynlegt að vera tilbúin til að taka á móti þeim ferðamönnum sem leggja leið sína hingað eftir 15. júní. Þessi skýrsla sýnir okkur hvað þarf að gera og það verður sett í ferli.“

Tillögur sóttvarnalæknis um nánari útfærslu væntanlegar

Endanleg ákvörðun um afléttingu ferðatakmarkana til landsins liggur ekki fyrir og hún verður ekki tekin fyrr en tillögur sóttvarnalæknis til ráðherra þar að lútandi liggja fyrir en ríkisstjórnin mun núna hefja undirbúning afléttingar.

„Við byrjum að undirbúa það að geta framkvæmt þessa skimun á landamærum og boðið upp á hana en svo er tillaga sóttvarnalæknis um nánari útfærslu væntanleg,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert