Kári fundaði með þríeykinu

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fundaði með þríeykinu; Þórólfi sóttvarnalækni, …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fundaði með þríeykinu; Þórólfi sóttvarnalækni, Ölmu landlækni og Víði yfirlögregluþjóni í dag um aðkomu ÍE að skimun ferðamanna við komuna til landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fundaði með Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra, Ölmu D. Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni auk fulltrúa frá forsætisráðuneytinu í dag. Efni fundarins var aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar á skimunum ferðamanna við komuna til landsins. 

Kári vildi sem minnst segja um fundinn þegar mbl.is leitaði eftir því. „Þetta var ósköp huggulegur fundur. Við ræddum almennt um hluti og vorum að skiptast á skoðunum.“

Kári sagði í Kast­ljósi á RÚV á miðvikudagskvöld að fyr­ir­tækið myndi ekki koma að skimun á landa­mær­um Íslands ef verk­efnið yrði unnið und­ir stjórn heil­brigðisráðuneyt­is­ins. Sam­skipt­in milli fyr­ir­tæk­is­ins og ráðuneyt­is­ins væru þannig að fyr­ir­tækið treysti sér ekki til þess. Annað hljóð var í honum eftir fræðslufund ÍE um COVID-19 í gærkvöldi þar sem hann sagði að fyrirtækið myndi koma til með að aðstoða, veita ráð, gefa hug­búnað og veita aðgang að sérþekk­ingu hvað varðar skimunina. 

Fyrirkomulag skimunarinnar skýrist eftir helgi

Víðir segir í samtali við mbl.is að í sjálfu sér hafi ekkert nýtt komið fram á fundinum. „Við vorum að tryggja samskiptaleiðirnar, þetta var góður fundur og þessi vinna er komin á fullt og við erum að hitta alla sem koma að útfærslunni.“ 

Víðir segir að Íslensk erfðagreining horfi á það sem samfélagslega skyldu sína að taka þátt í skimun ferðamanna. „Þau hafa lagt mikla vinnu í þetta hingað til og eru tilbúin í að halda áfram að hjálpa.“

Fyrirkomulag skimunarinnar mun skýrast eftir helgi að sögn Víðis en kapp verður lagt á að ljúka þeirri vinnu sem eftir er við útfærsluna um helgina. „Ég hugsa að á þriðjudag, í síðasta lagi miðvikudag, verði komin skýrari mynd á þetta.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir, …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir, betur þekkt sem þríeykið. Ljósmynd/Lögreglanmbl.is