„Væri mjög erfitt að gera þetta án okkar aðkomu“

Íslensk erfðagreining hefur ákveðna sérþekkingu, reynslu og getu til að …
Íslensk erfðagreining hefur ákveðna sérþekkingu, reynslu og getu til að skima fyrir veirunni sem finnst ekki annars staðar í íslensku samfélagi segir Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við komum til með að aðstoða, veita ráð, gefa hugbúnað og veita aðgang að sérþekkingu, bæði við að geyma og greina gögn, en ég held að bein aðkoma okkar að skimun verði mjög lítil. En við verðum til staðar ef eitthvað kemur upp á og það myndast þörf.“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is spurður að því hvort að honum hafi snúist hugur um aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar um að taka þátt í skimun á landamærum Íslands.

Kári sagði í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi að fyrirtækið myndi ekki koma að skimun á landamærum Íslands ef verkefnið yrði unnið undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins. Samskiptin milli fyrirtækisins og ráðuneytisins væru þannig að fyrirtækið treysti sér ekki til þess.

ÍE hefur getu sem finnst ekki annars staðar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafa öll rætt mikilvægi aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að verkefninu.

En eftir fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag sagði Kári þó að það kæmi til greina að fyrirtækið tæki þátt í skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Hann segir forsætisráðherra ekki hafa óskað formlega eftir aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar.

„Við sátum og ræddum það verkefni sem felst í skimun á landamærum. Þórólfur sóttvarnalæknir hefur lagt áherslu á að það væri mjög erfitt að gera þetta án okkar aðkomu og ég held að það sé rétt hjá honum því við höfum ákveðna sérþekkingu, ákveðna reynslu og ákveðna getu sem finnst ekki annars staðar í íslensku samfélagi,“ segir Kári.

Frá fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um baráttuna gegn COVID-19 sem fram …
Frá fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um baráttuna gegn COVID-19 sem fram fór síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smá árekstur en engir eftirmálar

Spurður um samskipti hans og Svandísar segir Kári að um smá árekstur hafi verið að ræða og að einhverra hluta vegna hafi samskipti þeirra á milli ekki verið eins „þýð og þau hefðu átt að vera“. Þau væru þó bæði komin yfir það enda verkefnið fram undan „of alvarlegt og merkilegt“ til að festast í ósætti.

Verkefnisstjórn um skimun fyrir COVID-19 á landamærum Íslands komst að þeirri niðurstöðu að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans væri ekki í stakk búin til að vinna úr nema 500 sýnum á dag. Aðkoma „annarra greiningaraðila“ væri því úrræði til að auka greiningargetuna.

Kári segir ósanngjarnt að bera saman greiningargetu sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar enda sé ÍE miklu betur í stakk búin til ef horft er til tækja, mannafla og hugbúnaðar. Auk þess hafi sýkla- og veirufræðideildin alls konar öðrum skyldum að gegna.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir fundinn í kvöld. Mynd/mbl.is

Fjöldi hefur smitast án þess að vita af því

Mælingar Íslenskrar erfðagreiningar hafa leitt í ljós að 0,9% þjóðarinnar, fyrir utan þá sem hafa greinst með staðfest smit eða voru settir í sóttkví, hafa myndað mótefni við kórónuveirunni. Kári greindi frá þessu á fræðslufundi um COVID-19 fyrr í kvöld. Það þýðir að mikill meirihluti þjóðarinnar er enn berskjaldaður fyrir veirunni.

Rétt rúmlega 1.800 manns hafa greinst með staðfest smit hér á landi og þá hafa um 22 þúsund manns verið settir í sóttkví. Miðað við mótefnamælingar Íslenskrar erfðagreiningar hefur tæpt eitt prósent af öðrum landsmönnum smitast af veirunni.

„Sá fjöldi hefur smitast án þess að hafa vitað af því eða án þess að hafa orðið það lasnir að þeir leituðu til heilbrigðiskerfisins. Það má ekki gleyma því að á þessum árstíma er kvef til dæmis mjög algengt þannig að ég reikna með því að það hafi fullt af fólki verið með tiltölulega mild einkenni,“ segir Kári.

Hafa prófað margar aðferðir við mótefnamælingu

Íslensk erfðagreining hefur verið að skima fyrir mótefnum hjá öllum þeim sem greindust með staðfest smit og öllum þeim sem voru sendir í sóttkví. Þá hefur fyrirtækið verið að skima slembiúrtak úr þjóðinni og hjá þeim sem fara í blóðprufu hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Í þeim tilvikum er tekið örlítið meira sýni úr einstaklingum, með þeirra leyfi, og það sent til Íslenskrar erfðagreiningar.

„Flestir sem eru að gera þetta úti í heimi nota eina aðferð, við erum búin að prófa 4 til 5 aðferðir til að skilja hvað er að gerast,“ segir Kári um aðferðafræði Íslenskrar erfðagreiningar við mótefnamælingar og bætir við: „Okkar nálgun á greiningu gagna er slík að við getum ekki hugsað okkur að tjá okkur fyrr en við erum búin að skoða þetta frá öllum hliðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert