Kannbisræktun í svefnherbergjum

Kannabisplöntur í fullum blóma. Myndin er úr safni.
Kannabisplöntur í fullum blóma. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í fyrradag kannabisræktun í íbúðarhúsnæði. Ræktunin var í tveimur tjöldum í svefnherbergjum, á annað hundrað plöntur samtals.

Í öðru húsnæði, sem lögregla gerði einnig húsleit í að fenginni heimild, fundust svo fáeinar plöntur til viðbótar. Sami einstaklingurinn stóð fyrir ræktuninni á báðum stöðum. Lögregla fjarlægði bæði plöntur og ræktunartól til eyðingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, sem segir enn fremur að þetta sé í annað sinn á skömmum tíma sem lögregla stöðvar umfangsmikla kannabisræktun í umdæminu.

„Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja  til að koma á framfæri  upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Einnig er hægt að koma ábendingum á framfæri á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum.“

mbl.is