Setjast aftur að samningaborðinu

Frá síðasta samningafundi Flugfreyjufélagsins og Icelandair.
Frá síðasta samningafundi Flugfreyjufélagsins og Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair á miðvikudag klukkan 14. Setjast viðsemjendur því að samningaborðinu í fyrsta sinn frá því miðvikudaginn 20. maí þegar slitnaði upp úr viðræðum.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir í samtali við mbl.is að hann hafi fundað með báðum aðilum frá þeim tíma, hvorum í sínu lagi.

Á síðasta samningafundi flugfreyja og Icelandair lagði fyrirtækið fram tilboð sem það lýsti sem „lokatilboði“ sínu en það innibar meðal annars að laun launalægstu flugfreyjanna yrðu hækkuð um 12% á móti 20% auknu vinnuframlagi. Samninganefnd Flugfreyjufélagsins hafnaði tilboðinu og virtist mikil samstaða um þá ákvörðun á félagsfundi Flugfreyjufélagsins sem haldinn var tveimur dögum síðar.

Sama dag samþykktu hluthafar Icelandair að ráðast í hlutafjárútboð og fer það fram 29. júní til 2. júlí. Er stefnt að því að safna 29 milljörðum króna í aukið hlutafé.

mbl.is