Icelandair: Flugfreyjufélagið hafnaði „lokatilboðinu“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flugfreyjufélag Íslands hefur hafnað „lokatilboði“ Icelandair, sem fyrirtækið lagði fyrir félagið fyrr í vikunni. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar. Segir að viðræður Icelandair við FFÍ hafi ekki gengið upp og að Icelandair telji ólíklegt að frekari viðræður við félagið muni skila árangri.

Icelandair segist ætla að skoða alla möguleika í stöðunni áður en frekari skref verða tekin, en hluthafafundur félagsins verður nú á föstudaginn og hefur forstjóri Icelandair sagt að samningar við flugstéttirnar þurfi að liggja fyrir fyrir þann tíma. Er áformað að ákvörðun um mögulega hlutafjáraukningu verði tekin á þeim fundi.

Gengi Icelandair hefur lækkað um 16,7% í viðskiptum í dag og er gengi bréfa félagsins nú 1,5 krónur á hlut. 

Lesa má tilkynninguna til Kauphallarinnar í heild hér.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að tilboðið hafi verið lagt fram á mánudaginn og að til hafi staðið að funda hjá ríkissáttasemjara seinni partinn í gær. Því hafi verið frestað að ósk samninganefndar FFÍ og frestað til hálfníu í morgun. Eftir gagntilboð FFÍ ítrekaði Icelandair lokatilboð sitt með viðbótum, en samninganefnd FFÍ hafnaði boðinu í kjölfarið.

Segir Icelandair að sitt mat sé að tillögur FFÍ séu þess eðlis að samningurinn fari langt frá þeim markmiðum sem sett voru í kjaraviðræðum félagsins við önnur stéttarfélög flugstétta, en þegar hafa verið gerðir langtímasamningar við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugvirkjafélags Íslands. Segir Icelandair þá samninga kveða á um sveigjanleika og viðbót við vinnuskyldu og styðja þar með við markmið Icelandair Group um að auka samkeppnishæfni félagsins á alþjóðamarkaði en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og tryggja því gott starfsumhverfi.

Icelandair segir að viðbætur við tilboð sitt sem settar voru fram í morgun hafi innihaldið eftirgjafir frá fyrri tilboðum og meðal annars falið í sér hækkun allra grunnlauna með sérstakri áherslu á lægstu laun, val um starfshlutfall, flugstundahámörk innan mánaðar væru færð niður og skorður við hámarksfjölda lausráðinna flugfreyja og -þjóna.

„Að öllu óbreyttu verður ekki lengra komist í viðræðum við FFÍ,“ segir í tilkynningu Icelandair.

„Það eru mikil vonbrigði að Flugfreyjufélag Íslands hafi hafnað tilboði okkar. Þetta var okkar lokatilboð og byggir það á sama grunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja. Í tilboðinu eru fólgnar grunnlaunahækkanir, aukinn sveigjanleiki varðandi vinnutíma en á sama tíma tryggir það samkeppnishæfni og sveigjanleika Icelandair. Því miður verður ekki lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og þurfum við nú að skoða aðrar leiðir. Við ætlum okkur að koma félaginu í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja og styrkja rekstur þess til framtíðar,” er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK