Ekki víst að allir geti kosið

Forsetakosningar fara fram 27. júní í sumar.
Forsetakosningar fara fram 27. júní í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa er í flestum tilfellum talin nægilega góð ástæða til að ferðast,“ segir María Mjöll Jónsdóttir, deild­ar­stjóri upp­lýs­inga­deild­ar ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, um Íslendinga sem búsettir eru erlendis og hyggjast nýta kosningarétt sinn í forsetakosningunum 27. júní.

Kosning utan kjörfundar erlendis hófst 25. maí, en líkur eru á því að útgöngubönn og aðstæður sem skapast hafa sökum kórónuveirufaraldurs kunni að hafa áhrif á hvort hægt verði að kjósa hjá kjörræðismönnum. „Fólk sem er á stöðum þar sem takmarkanir eru í gildi geta haft samband við kjörræðismenn og sendiskrifstofur til að leita ráða,“ segir María. 

Spurð hvort komið geti til þess að einhverjir Íslendingar geti ekki komið atkvæði sínu til skila kveður María já við. Í sumum tilfellum séu einstaklingar einfaldlega ekki í aðstöðu til þess. „Það sást í faraldrinum hversu víða Íslendingar eru. Einstaklingar sem búsettir eru erlendis þurfa að komast til að kjósa ásamt því að koma atkvæðinu til skila. Á ýmsum stöðum eru miklar takmarkanir í gildi,“ segir María. 

mbl.is