Búinn að vekja 13 þúsund manns

mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Franklín Jónsson var léttur í bragði þegar mbl.is náði tali af honum í morgun. „Ég fer ekki ósáttur frá borði. Ég er búinn að vekja þrettán þúsund manns, og þegar þú vaknar upp er erfitt að fara að sofa aftur,“ segir Guðmundur. „Bara um að gera að vekja fleiri.“

Segir Guðmundur að niðurstöður kosninganna hafi ekki komið sér mikið á óvart. Sér hafi þó tekist að beina sjónum almennings að mikilvægum málefnum á borð við mikilvægi þess að auðlindirnar haldist í þjóðareigu og að bankarnir verði ekki seldir.

„Ég þakka innilega fyrir stuðninginn. Þrettán þúsund manns er frábær niðurstaða,“ segir Guðmundur, en hann segir niðurstöðurnar í takt við væntingar sínar. Þá telur hann fólk vera ánægt með að kosningarnar hafi átt sér stað og að það hafi fengið tækifæri til að staðfesta stuðning sinn við sitjandi forseta.

Forsetinn þarf að standa í lappirnar

Guðmundur ávarpaði stuðningsfólk sitt í morgun í gegnum samfélagsmiðla. „Þetta er bara skynsamt fólk sem kaus mig. Þó svo að við höfum ekki unnið, þá kusum við með okkar sannfæringu, og það er betra en að vaða blint í málið og kjósa það sem manni er sagt að kjósa.“

Guðmundur er nú á leiðinni í sumarfrí til að taka það rólega. Hann ætlar svo að sjá til í haust hvað tekur við. 

„Núna verður forsetinn að standa í lappirnar, en ég vona að stjórnvöld forherðist ekki í einkavæðingu og sölu ríkiseigna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert