„Allar mannverur eiga tilkall til virðingar“

Ef Íslendingar vilja útrýma rasisma þurfa þeir að byrja á að skoða það sem á sér stað í þeirra eigin bakgarði segir ung kona frá Chile sem hefur upplifað rasisma innan heilbrigðiskerfisins og víðar síðan hún flutti til Íslands árið 2017.

Fjöldi Íslendinga hefur sýnt andúð sína á lögregluofbeldi gagnvart svörtu fólki í Bandaríkjunum undanfarið en konan, Alondra Silva Muñoz, segir að Íslendingar ættu að líta á veruleika innflytjenda á Íslandi ef þeir vilji raunveruleg áhrif.

„Ég held að það verði þáttaskil ef fólk fer að átta sig á því að rasismi er ekki eitthvað sem á sér einungis stað annars staðar heldur líka hér. Innflytjendum er alltaf að fjölga hérlendis svo hlutirnir þurfa að breytast. Þetta fólk á rétt á virðingu eins og aðrir. Fyrir utan þá staðreynd að allar mannverur eiga tilkall til virðingar má benda á það að innflytjendur hafa lengi verið nauðsynlegur þáttur í vexti hagkerfisins hér á landi. Raunveruleikinn er sá að um 14% af þeim sem hér búa, fæddust ekki hér á landi. Saman myndum við öll íslensk samfélag og leggjum öll jafnt af okkar mörkum til samfélagsins og framtíðar þess,“ segir Alondra.

Frá samstöðufundi á Austurvelli vegna lögregluofbeldis gagnvart svörtum í Bandaríkjunum.
Frá samstöðufundi á Austurvelli vegna lögregluofbeldis gagnvart svörtum í Bandaríkjunum. mbl.is/Árni Sæberg

Lendir ítrekað í rasisma innan heilbrigðiskerfisins

Hún hefur orðið fyrir rasisma í sundi, heilbrigðiskerfinu og víðar en tekur skýrt fram að þrátt fyrir það sé hún í forréttindastöðu.

„Ég get einungis talað út frá minni eigin reynslu. Ég og eiginmaður minn vinnum mikið með hælisleitendum og innflytjendum og mér finnst mikilvægt að taka fram að þau eru í talsvert verri stöðu en ég. Ég er í þeirri forréttindastöðu að ég er menntuð, er í vinnu, á gott félagslegt net og fjárhagsstaða mín er góð.“

Alondra er þunguð og segist ítrekað lenda í rasisma þegar hún leitar sér læknisaðstoðar.

„Vissir heilbrigðisstarfsmenn sýna mikinn pirring þegar ég tala við þá á ensku eða bið um heilbrigðisþjónustu á ensku. Ef maðurinn minn, sem er íslenskur, biður um hið sama á íslensku þá mætir hann ekki sama viðmóti. Svona viðmót lætur þér líða eins og þú sért annars flokks sjúklingur.“

mbl.is/ragnhildur

Fólk líti á innflytjendur sem byrði

Spurð hvort Íslendingar átti sig á þeim rasisma sem er að finna í íslensku samfélagi segir Alondra:

„Margir meina vel en stundum snýst þessi góði vilji upp í andhverfu sína. Til dæmis þegar fólk lítur á innflytjendur sem byrði á kerfinu þrátt fyrir að það segi það ekki berum orðum. Þá virðist fólk ekki átta sig á því að innflytjendur eru alveg jafn miklir þátttakendur í samfélaginu og aðrir og eiga jafn mikinn rétt á því sem það hefur upp á að bjóða.“

Alondra bætir því við að innflytjendur greiði skatta á Íslandi rétt eins og Íslendingar og því sé miður þegar Íslendingar líti á þá sem byrði eða lægri stéttar.

„En hvað sem öllum efnahagslegum ástæðum líður þá er grundvallaratriðið alltaf það að allar mannverur eiga rétt á virðingu og jafnrétti.“

Íslenskan tvíeggja sverð

Spurð hvað sé það erfiðasta við að vera innflytjandi á Íslandi segir Alondra:

„Ég held að það sé að finna jafnvægi hvað varðar tungumálið. Tungumálið getur verið eitthvað sem útilokar þig og lætur þér líða eins og þér sé úthýst en það getur líka verið eitthvað sem fólk deilir með þér til þess að láta þér líða vel og valdefla þig.“

Hún segir að margir meini mjög vel þegar þeir tala íslensku við innflytjendur og það geti látið þeim líða vel.

„En í vissum aðstæðum viltu kannski ekki tala íslensku vegna þess að þú vilt ekki að neins konar misskilningur eigi sér stað. Til dæmis innan heilbrigðiskerfisins eða á mikilvægum fundi í vinnunni. Fyrir mér er þetta virkilega erfitt því ég trúi að fólk meini vel en stundum gleymir fólk því að ég sé á staðnum og ég sit á fundi þar sem ég skil ekkert.“

mbl.is