Hálfgerð „Agatha Christie-niðurstaða“

Olof Palme árið 1975.
Olof Palme árið 1975. AFP

Útvarpskonan Vera Illugadóttir segir að niðurstaða rannsóknar á máli Olof Palme um að Stig Engström hafi að öllum líkindum myrt hann hafi ekki komið sér á óvart. Það kom henni aftur á móti á óvart hversu lítið var til grundvallar niðurstöðunni.

Hún segist skilja að rannsakendur hafi ekki komist lengra með málið vegna skorts á sönnunargögnum svona löngu eftir að morðið á sænska forsætisráðherranum var framið en bætir við að fyrir vikið sé hrein og klár niðurstaða ekki komin í málið. „Þetta er hálfpartinn Agatha Christie-niðurstaða,“ segir Vera og á þar við sakamálahöfundinn heimsfræga. 

Vera Illugadóttir.
Vera Illugadóttir. Ljósmynd/RÚV

Sænskir nördar vilja vita meira

Vera fjallaði um morðið á Olof Palme í tveimur þáttum af Í ljósi sögunnar fyrir fjórum árum. Einnig flutti hún erindi um málið á fyrirlestri í Norræna húsinu í síðasta mánuði vegna útgáfu bókarinnar „Arfur Stiegs Larsson“ í íslenskri þýðingu þar sem reifuð er ákveðin kenning um lausn morðmálsins.

„Ég held að mjög margir munu ekki sætta sig við þetta. Ég hef fylgst með sænskum nördum sem hafa mikinn áhuga á þessu máli og þessar undarlegu málalyktir hafa bara kynt undir samsæriskenningarnar,“ segir Vera, sem segir kenninguna um morðið sem var kynnt í morgun vera sannfærandi. Meira sannfærandi en mjög margt annað sem hún hafi heyrt, þó svo að bara sé um kenningu að ræða.

„Ég sætti mig alveg við þetta en auðvitað hefði verið skemmtilegra að fá eitthvað mjög „konkret“ þannig að allir myndu sannfærast. Þetta svona hálflendir málinu.“

Blómsveigar lagðir við staðinn þar sem Palme var myrtur árið …
Blómsveigar lagðir við staðinn þar sem Palme var myrtur árið 1986. AFP

Rífast áfram um morðið næstu áratugina

Aðspurð kveðst hún vera lítið gefin fyrir samsæriskenningar en telur að þær muni lifa góðu lífi áfram „Þetta er mjög heillandi mál. Maður þarf að passa sig því maður getur misst sig í þessu og ég held að margir hafi gert það í gegnum tíðina,“ segir og nefnir að það merkilegasta við niðurstöðuna sé að málið muni lifa áfram. „Þetta gerir það að verkum, eins og með morðið á Kennedy [Bandaríkjaforseta sem var myrtur árið 1963] að fólk mun halda áfram að vera með kenningar og rífast um þetta næstu áratugina.“

Spurð út í þættina sem hún gerði fyrir fjórum árum segist hún aldrei hafa haft kenningu um hver morðinginn hafi verið. Þess í stað var hún „til í að skoða allt og hafna síðan öllum kenningum“. Hún hafi ekki byrjað að lesa almennilega um Engström fyrr en fyrir tveimur árum.

Vera hefur stýrt þáttunum Í ljósi sögunnar við miklar vinsældir …
Vera hefur stýrt þáttunum Í ljósi sögunnar við miklar vinsældir síðastliðin ár. Skjáskot/RÚV

Þáttur um málið á föstudaginn 

Til að fylgja niðurstöðu dagsins eftir verður næsti þáttur Í ljósi sögunnar, núna á föstudagsmorgun á Rás 1, tileinkaður málinu. Spurð hvort fleiri þættir um morðið á Olof Palme muni líta dagsins ljós segist hún vona ekki. „Vonandi deyr þetta út en ég held samt ekki. Það er aldrei að vita hvað gerist. Fólk mun halda áfram að koma með kenningar og skrifa bækur,“ greinir hún frá.

mbl.is