Sakfellingin sýni mikilvægi ályktunar Íslands

Guðlaugur segir vopn Íslands rödd landsins og samstarf þess við …
Guðlaugur segir vopn Íslands rödd landsins og samstarf þess við Norðurlöndin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sakfelling eins þekktasta og virtasta blaðamanns Filippseyja, Mariu Ressa, sýnir svart á hvítu að fullt tilefni var til að beina kastljósi að stöðu mannréttinda á Filippseyjum í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

„Við höfum lýst miklum áhyggjum af stöðu fjölmiðlafrelsis í landinu og þessi niðurstaða er eitt af mörgu sem bendir til þess að því fari áfram hnignandi.“

Guðlaugur hitti Ressa þegar hún var stödd hérlendis í lok síðasta ár. Þá þakkaði hún Íslendingum fyrir að hafa forgöngu um samþykkt ályktunar í mannréttindaráðinu um ástandið á Filippseyjum. 

„Hún sagði að það skipti máli fyrir fólk eins og hana sem berst fyrir mannréttindum, fjölmiðlafrelsi og málfrelsi, að kastljós heimsins væri á stöðunni á Filippseyjum. Hún sagði mér að það væru ellefu dómsmál í gangi gagnvart henni og samtals gæti hún átt yfir höfði sér margra ára fangelsisdóma og sætti líka líflátshótunum. Þótt þetta ylli henni áhyggjum og kvíða [sagði Ressa að það] væri ekki valkostur fyrir hana að gefast upp og láta sig hverfa en hún væri samt viðbúin hinu versta,“ segir Guðlaugur.

„Í okkar huga sýnir þetta svart á hvítu að það var fullt tilefni til að bera upp ályktunina í mannréttindaráðinu eins og við gerðum. Hún var mjög hófsöm og við báðum einfaldlega um að skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna tæki saman skýrslu um mannréttindaástandið á Filippseyjum.“

Ísland muni ekki láta sitt eftir liggja

Umrædd skýrsla kom nýverið út eins og áður hefur verið greint frá.  

„Fulltrúar mínir voru einmitt í utanríkismálanefnd í morgun til að ræða þetta við nefndina. Það mun fara fram sérstök umræða um skýrsluna í mannréttindaráðinu undir lok þessa mánaðar og þar mun Ísland vitaskuld taka til máls enda er litið til okkar sem málshefjanda. Ég segi það sama og ég sagði við Mariu Ressa, að Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum og að sjálfsögðu munum við beita okkur með þeim hætti sem við getum,“ segir Guðlaugur sem vonar að mannréttindasamtök og alþjóðasamtök blaðamanna beiti sér í málinu.

Spurður hvort Ísland geti aðhafst frekar segir Guðlaugur: 

„Í sjálfu sér er vopnið sem við höfum bara rödd og það nána samstarf sem við eigum við Norðurlönd og önnur ríki um mannréttindamál […] Það er augljóst að það er tekið eftir rödd Íslands á alþjóðavettvangi en í því felst líka að við þurfum ávallt að vanda okkur mjög í allri framsetningu.“

Verða við áskorunum frá frömuðum og samtökum

Guðlaugur segir að Ísland muni halda áfram að ræða mannréttindi á Filippseyjum á alþjóðavettvangi. 

„Það mun ekki standa á okkur en auðvitað er það ekki bundið við Filippseyjar. Við lögðum upp með það í mannréttindaráðinu að benda á hið augljósa, að það yrðu gerðar sérstakar kröfur til þeirra sem sitja í mannréttindaráðinu. Þess vegna tókum við meðal annars upp málefni Filippseyja og Sádi-Arabíu og við munum að sjálfsögðu halda því áfram þótt við eigum ekki sæti í ráðinu. Við munum meðal annars verða við áskorunum sem við höfum fengið frá mannréttindafrömuðum og mannréttindasamtökum og öðrum þeim ríkjum sem við eigum í nánustu samstarfi við.“

Guðlaugur segir að í þessu samhengi sé sérlega ánægjulegt að fylgjast með umræðunni í Danmörku undanfarið en Danir eiga sæti í mannréttindaráðinu.

„Þar hafa stjórnvöld verið hvött til að taka Ísland sér til fyrirmyndar hvað varðar framgöngu okkar í málefnum Sádi-Arabíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert