Daði býður fram krafta sína í Viðreisn

Daði Már Kristófersson.
Daði Már Kristófersson. Ljósmynd/Aðsend

Daði Már Kristófersson, fráfarandi forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í hagfræði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Viðreisnar á aðalfundi flokksins í september. 

„Ég tók þátt í stofnun Viðreisnar með Benedikt þegar flokkurinn varð til og sat í fyrstu stjórn. Svo hef ég undanfarin sjö ár verið forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og hef þar af leiðandi hvorki haft tíma né tækifæri til að sinna þessum störfum. Ég tók ákvörðun í fyrrahaust að láta af því starfi og hætti núna 1. júlí þannig það verða ákveðin tímamót,“ segir Daði í samtali við mbl.is. 

„Það kom þó hvergi nálægt þessu enda tók ég þá ákvörðun að hætta löngu áður en Þorsteinn Víglundsson hætti í pólitík,“ segir Daði, en Þorsteinn gegndi embætti varaformanns Viðreisnar þar til hann sagði af sér þingmennsku og varaformennsku fyrr á þessu ári. 

„Það var frekar þetta skyndilega áfall sem kórónuveiran hefur ollið og efnahagsafleiðingar þess sem að gerði það að verkum að mér fannst ástæða til þess að bjóða fram krafta mína.“ 

Daði segir það ekki útilokað að hann bjóði sig fram í þingkosningum næsta árs, fari svo að hann verði kjörinn varaformaður. 

„Fari þannig að flokkurinn kjósi mig sem varaformann mun ég að sjálfsögðu ekki skorast undan því að bjóða mig fram til þings, en það er auðvitað ekki mín ákvörðun hvort að svo verði.“

Daði segist ekki vita til þess að aðrir hafi gefið kost á sér í embætti varaformanns flokksins. 

„Ég held að það muni skipta miklu máli á komandi árum að nýta það svigrúm sem íslenska hagkerfið býr yfir til að takast á við þetta vandamál þannig að sem flestir komi sem best út úr því. Ég held að þess vegna sé einmitt kannski þörf fyrir einhvern með slíkan bakgrunn, segir Daði,“ en hann er með doktorsgráðu í hagfræði.  

Þá segist Daði hafa fengið góð viðbrögð við varaformannsframboðinu. 

„Nú er það þannig að ég er algjör nýgræðingur í pólitík og veit svo sem ekki hvað eru góð og hvað eru slæm viðbrögð. En ég hef ekki fengið neitt nema góð viðbrögð þannig að það hlýtur að vera jákvætt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert