57% telja kynþáttafordóma algenga á Íslandi

Frá samstöðufundi með mótmælendum í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði. …
Frá samstöðufundi með mótmælendum í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði. Samkvæmt nýrri könnun telja rúm 57% landsmanna kynþáttafordóma algenga á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Meirihluti landsmanna, rúm 57%, telja kynþáttafordóma algenga á Íslandi. Um fjórðungur, 25,9%, telur kynþáttafordóma hér á landi sjaldgæfa og tæp 17% telja þá hvorki algenga né sjaldgæfa. 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið. Umræða um kynþáttafordóma og baráttuna gegn þeim hefur verið umfangsmikil síðustu vikur eftir að hörð mótmæli brutust út í Bandaríkjunum, og síðar víða um heim, eftir að lögreglumaður varð George Floyd, svörtum Bandaríkjamanni, að bana í lok maí. 

Tíu prósent svarenda telja kynþáttafordóma mjög algenga hér á landi en 47% frekar algenga. Mikill munur er á svörum eftir kyni og telja 72% kvenna kynþáttafordóma algenga á Íslandi en 43% karla. 

Ef svör eru skoðuð eftir stjórnmálskoðunum má einnig sjá mikinn mun. Yfir 70% kjósenda Pírata og Vinstri grænna telja kynþáttafordóma algenga. Hlutfall kjósenda Samfylkingarinnar er örlítið lægra. Um 56-57% kjósenda Viðreisnar og Flokks fólksins telja kynþáttafordóma algenga en innan við 40% kjósenda Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru sömu skoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert