Verða alltaf verkefni til að takast á við

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra á blaðamannafundi um nýja út­gáfu af aðgerðaáætl­un í loft­slags­mál­um. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir ekki raunhæft að ætla að losna við alla kolefnislosun úr samfélaginu. Það verði alltaf verkefni sem þurfi að takast á við. 

Stjórnvöld kynntu í dag uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Fyrri aðgerðaáætlun var kynnt í september 2018, en þar voru þau markmið sett fram að ná markmiðum Parísarsáttmálans fyrir árið 2030, en í því felst að draga úr losun kolefnis um 29% miðað við árið 2005. Þá er það einnig markmið stjórnvalda að þjóðfélagið verði orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. 

„Þegar við lögðum upp í þessa vegferð með fyrstu áætluninni árið 2018 var alltaf meiningin að koma með aðra ári, einu og hálfu ári síðar. Við settum fram áætlun strax í upphafi sem við vorum búin að tryggja fjármagn fyrir og vildum koma strax í framkvæmd svo að við gætum farið að sjá árangur af okkar starfi fyrr,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. 

Meta árangur aðgerðanna

„Núna höfum við í rauninni uppfært áætlunina, bætt við nýjum aðgerðum. Við höfum líka metið árangur aðgerðarinnar með mörgum af færustu vísindamönnum landsins í loftslagsmálum með ákveðnu reiknilíkani þannig að það er búið að meta um helming aðgerðanna sem eru komnar til framkvæmda. Við eigum enn þá inni slatta af aðgerðum sem á eftir að meta því þær eru ekki komnar það langt að þær séu komnar til framkvæmda. Þar teljum við okkur líka eiga inni meiri samdrátt heldur en við höfum þegar sýnt fram á,“ segir Guðmundur. 

Á kynningarfundi stjórnvalda í dag kom fram að 46 milljörðum króna verður varið til helstu aðgerða í loftslagsmálum á fimm ára tímabili, 2020 til 2024. Í fyrri áætlun var gert ráð fyrir 6,8 milljörðum, en þeir fjármunir hafa verið tæplega sjöfaldaðir. 

„Við kynntum árið 2018 að það myndu fara 6,8 milljarðar í loftslagsmálin sérstaklega. Svo höfum við núna í millitíðinni dregið betur saman fyllri mynd af því sem ríkið er að setja í þetta. Núna erum við að horfa til þess að það eru um 46 milljarðar að fara í þennan málaflokk þegar við horfum á stærstu liðina. Það eru þá 9 milljarðar sérstaklega í loftslagsmál, sem hefur hækkað úr 6,8 og síðan höfum við tekið saman að þetta eru um 14 milljarðar í afslætti á virðisaukaskatti og síðan um 23 milljarðar á næstu fimm árum sem fara sérstaklega í samgöngur.“

Tekur ekki undir fullyrðingar í skýrslu Capacent

Í drögum að skýrslu sem Capacent vinnur fyrir Loftslagsráð stjórnvalda og fjallað var um á vef RÚV í síðustu viku kom fram að ekki liggi fyrir skýr sýn um hvernig Ísland ætlar að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og að fátt bendi til þess að Ísland eigi eftir að standa við markmið Parísarsamkomulagsins árið 2030. 

Guðmundur segist ekki geta tekið undir þetta. 

„Við sýnum fram á með þessari aðgerðaráætlun að við höfum snúið blaðinu við í loftslagsmálum á Íslandi með þeim aðgerðum sem við höfum gripið til og erum að sýna fram á árangurinn núna.“

„Það er fullyrt í þessum drögum að það sé ekki líklegt að við náum okkar markmiðum. Við höfum sýnt fram á annað í dag með þessari aðgerðaáætlun. Það er alveg ljóst að við hrekjum þessa fullyrðingu með þessari áætlun og sýnum fram á það með því að hafa metið aðgerðir sem þegar eru komnar til framkvæmda og að við erum að ná meira en alþjóðlegar skuldbindingar segja til um. Þannig að ég get ekki tekið undir það sem þarna er sagt,“ segir Guðmundur. 

Þá kom einnig fram í skýrsludrögum Capacent að stjórnsýsla um loftslagsmál sé um margt veik og óskilvirk. Guðmundur segir að margt hafi verið gert á síðustu árum til að efla utanumhald og stjórnsýslu um málaflokkinn. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fór meðal annars með frumvarp fyrir þingið í fyrra sem fjallaði akkúrat um að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála, meðal annars með því að festa loftslagsráð og loftslagssjóð í sessi, skylda sveitarfélög og ríki til þess að setja sér loftslagsstefnu, draga úr losun og setja í lög að við verðum að búa til aðgerðaráætlun eins og þessa sem við kynntum í dag. Við höfum líka gert skipulagsbreytingar innan ráðuneytisins og núna er til dæmis skrifstofa tileinkuð loftslagsmálum sem er breyting frá því sem var,“ segir Guðmundur. 

„Loftslagsmálin eru svo víðfeðm og þverfagleg að við viljum geta samþætt loftslagsmálin betur við aðra þætti í umhverfismálum, innan ráðuneytisins og hjá stofnunum en einnig hjá öðrum ráðuneytum. Þarna höfum við tekið á ákveðnum þáttum sem skýrslan er að gagnrýna.“ 

Spurður hvernig íslensk stjórnvöld hyggist ná settu markmiði um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 segir Guðmundur þá vinnu vera í fullum gangi innan ráðuneytisins. 

„Núna er að fara af stað vinna hjá okkur við að greina sviðsmyndir og með hvaða móti við ætlum okkur að komast í þetta kolefnishlutlausa samfélag árið 2040. Þar með talið hvernig við ætlum að fasa út jarðefnaeldsneytið sem er náttúrulega stóra verkefnið í þessu. Við munum aldrei geta losnað við alla losun en með nýrri og bættri tækni þá eigum við að geta dregið stórlega úr henni. Það verður alltaf eitthvað sem við eigum eftir að þurfa að takast á við, til dæmis með landgræðslu og skógrækt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert