Varnarsigur

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður flugfreyjufélagsins.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður flugfreyjufélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Samningur Flugfreyjufélagsins og Icelandair sem undirritaður var í nótt er ákveðinn varnarsigur fyrir flugfreyjur. Þetta segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins.

Með samningnum séu flugfreyjur að leggja sitt af mörkum til að aðstoða félagið í að vinna úr rekstrarerfiðleikum vegna gjörbreytts umhverfis, en meðal þess sem samningurinn felur í sér eru breytingar á reglum um hvíldartíma og vaktavinnu flugfélaginu til góða.

Hins vegar hafi tekist að verja ýmis réttindi sem Icelandair hafi í fyrri tilboðum viljað fella brott, segir Guðlaug og nefnir sem dæmi breytingar á ákvæðum um starfsöryggi flugfreyja sem kveða á um að flugfreyjum sé sagt upp og ráðnar inn að nýju eftir starfsaldri, en það fyrirkomulag tryggir að starfsöryggi eykst með hækkandi starfsaldri.

Þá séu eftirgjafir félagsins á ýmsum sviðum minni en þær sem farið var fram á í fyrri tilboðum félagsins, svo sem svokölluðu „lokatilboði“ sem gefið var út í maí en það fól meðal annars í sér 20% aukið vinnuframlag gegn 12% launahækkun fyrir flugfreyjur á lægstu laununum, og enn minni hækkun fyrir reynslumeiri flugfreyjur.

Guðlaug vill þó ekki fara ítarlega út í efni kjarasamningsins sem undirritaður var í nótt, enda á eftir að kynna hann fyrir flugfreyjum. Það verður gert á fundi félagsmanna á föstudag og í kjölfarið verður samningurinn lagður í atkvæðagreiðslu.

Spurð hvort hún mæli með samningnum, segir Guðlaug svo vera. „Maður skrifar ekki undir eitthvað sem maður mælir ekki með,“ segir hún.

Guðlaug viðurkennir að það sé mikill léttir að hafa loks náð samningum. „Þetta hafa verið þungar og flóknar viðræður og síðasta lota hefur sérstaklega tekið á enda erum við búin að sitja fram á nótt dögum saman,“ segir hún er blaðamaður nær tali af henni klukkan 4:30 að morgni þar sem hún er í þann mund að bursta tennur og koma sér í háttinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert