Fjöldi fær ekki að kjósa vegna sóttkvíar

Fólk sem fékk þær fréttir í dag að það væri …
Fólk sem fékk þær fréttir í dag að það væri á leið í sóttkví, fær ekki að kjósa á kjörstað á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vel á þriðja hundrað manns á í hættu að geta ekki kosið í forsetakosningum á morgun vegna sóttkvíar eftir samskipti við einstaklinga með COVID-19. Íslenskur maður sem hefur verið tilkynnt að hann fái ekki kjósa er ekki sáttur.

Þeir 70 sem þegar hafa verið sendir í sóttkví komast ekki á kjörstað á morgun, þannig að þeir þeirra, sem ekki höfðu þegar kosið utan kjörfundar eða þegar pantað heimakosningu, hafa ekki kost á að taka þátt í kosningunum, nema til snarra bráðabirgðaráðstafana komi af hálfu sýslumanns.

Smitrakningarteymið ráðgerir að hafa samband við um 200 til viðbótar og mun því hluti þess hóps fá þær fréttir í dag að þeim sé óheimilt samkvæmt lögum að ganga til kosninga á morgun. Það varðar enda sóttvarnalög að brjóta reglur um sóttkví.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á blaðamannafundi áðan að vegna stutts fyrirvara væri kosning fyrir þessa aðila óframkvæmanleg.

„Mér finnst þetta fáránlegt“

Íslenskur maður á þrítugsaldri sem mbl.is ræddi við, en lætur ekki nafns síns getið, fékk þær upplýsingar nú um miðjan dag að hann gæti ekki nýtt atkvæðisrétt sinn á morgun. Hann var síðasta laugardag í sömu veislu og smitaður Íslendingur og var af þeim sökum sendur í sóttkví í dag.

„Mér finnst þetta fáránlegt og ég er alls ekki sáttur við þetta,“ segir maðurinn, sem hafði hugsað sér að kjósa á kjördag. Hann hringdi í smitrakningarteymið áðan en fékk þær upplýsingar að hann mætti ekki mæta á kjörstað. Smitrakningarteymið hafði þá fengið þær upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu að ekki yrði unnt að koma til móts við þennan hóp.

Hafi samband við sýslumenn

Erla S. Árnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að mál kjósenda í þessari stöðu hafi ekki komið inn á hennar borð en kveðst telja að þessi hópur hefði þurft að kjósa með einum eða öðrum hætti utan kjörfundar og að til þess þurfi sýslumanni að berast beiðni fjórum dögum fyrir kjörstað. „Þannig að ég geri ráð fyrir að þetta verði erfitt með þá sem ekki hafa náð sambandi við sýslumann,“ segir hún.

Hún útilokar þó ekki að hafi viðkomandi aðilar samband við sýslumann geti hann mögulega brugðist við og kannað hvort hægt sé að koma kosningunni við og hvetur aðila í þessari stöðu til að reyna að ná sambandi við sýslumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert