Kalla eftir ítarlegri rannsókn

Slökkviliðsmenn að störfum í gær.
Slökkviliðsmenn að störfum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþýðusamband Íslands kallar eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Samkvæmt fréttum eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu og langstærstur hluti þeirra er erlent fólk. Það leiðir líkum að því að um sé að ræða erlent verkafólk sem atvinnurekandinn hefur útvegað húsnæði, að því er ASÍ segir. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu ASÍ vegna brunans. 

Vilja samhæfðar aðgerðir til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks

„Staðfest hefur verið að þrír einstaklingar létu lífið í brunanum á Bræðraborgarstíg 1 og tveir eru nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Aðstandendum látinna eru vottaðar djúpar samúðarkveðjur.

Alþýðusamband Íslands kallar eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og orsökum brunans. Samkvæmt fréttum eru 73 einstaklingar með skráð lögheimili í húsinu og langstærstur hluti þeirra er erlent fólk. Það leiðir líkum að því að um sé að ræða erlent verkafólk sem atvinnurekandinn hefur útvegað húsnæði.

Verkalýðshreyfingin hefur um langt skeið kallað eftir samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, sporna gegn mansali og koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Enn skortir á að staðið sé við fyrirheit Lífskjarasamninganna þar að lútandi. Sérstaklega hefur verkalýðshreyfingin farið fram með kröfur til að tryggja aðbúnað verkafólks sem dvelur í húsnæði á vegum atvinnurekanda og að atvinnurekendur séu kallaðir til ábyrgðar ef húsnæði er óviðunandi. Vitað er um fleiri tilfelli þar sem grunur leikur á að fjöldi fólks hafist við í óviðunandi húsnæði,“ segir í yfirlýsingu ASÍ. 

„Svona má aldrei gerast aftur“

„Hugur okkar er nú fyrst og fremst hjá því fólki sem var í húsinu þegar eldurinn braust út og aðstandendum þess. Við köllum eftir því að málið sé rannsakað af fullum þunga. Enn er óljóst á hvers vegum fólkið dvaldi í húsinu og hvers vegna svo margt fólk var þar með skráð lögheimili. Við vitum að ítrekað hefur verið kallað eftir að þetta húsnæði – og annað sambærilegt – væri tekið til skoðunar vegna ástands þess. Bruninn á Bræðraborgarstíg kallar á ítarlega og fumlausa rannsókn og það er krafa ASÍ að þar sé hverjum einasta steini velt við. Svona má aldrei gerast aftur,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert