Tveir létust í árekstri á Kjalarnesi

mbl.is

Tveir létust í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, norðan Grundarhverfis, í dag, en tilkynning um slysið barst klukkan 15:13. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem létust þegar ökutækin skullu saman voru ökumaður og farþegi á bifhjólinu. Annað bifhjól kom aðvífandi þegar áreksturinn varð og missti ökumaður þess stjórn á hjólinu og féll af því. Hann var fluttur á Landspítalann til aðhlynningar og er líðan hans eftir atvikum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Aðstæður vegkaflans eru sérstaklega til skoðunar en nýtt slitlag var á veginum þar sem slysið varð og sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að malbikið hefði verið „nánast eins og skautasvell“.

Ekki er grunur um ógætilegan akstur eða hraðakstur í aðdraganda slyssins.

mbl.is