Starfsmenn eru harmi slegnir

Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem …
Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem sköpuðust á slysstað segir Bergþóra. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að starfsmenn stofnunarinnar séu harmi slegnir yfir banaslysinu sem varð á Kjalarnesi í júnilok og því að slíkar aðstæður hafi getað skapast við venjubundið viðhald á vegum. Vegagerðin vinni nú að umfangsmikilli endurskoðun á öllum ferlum sem lúta að yfirlögnum á vegakerfinu. 

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

Hún segir einnig, að markmið þeirrar vinnu sé að tryggja að slys sem þetta geti ekki komið fyrir aftur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Bergþóra hefur birt á vef Vegagerðarinnar. 

Hún er svohljóðandi:

„Vegna umræðu um öryggi á vegum að undanförnu viljum við hjá Vegagerðinni koma eftirfarandi á framfæri.

Í júní síðastliðnum átti sér stað hræðilegt slys á Kjalarnesi.   Á umræddum vegarkafla var nýlokið viðhaldi á malbiksyfirborði og beindust sjónir strax að frávikum í framkvæmd þessa verks. Rannsóknir á viðnámi á yfirborði sýndu í framhaldinu að miklu munaði að uppfylltar væru kröfur í útboðslýsingu til verksins.  í rannsóknum sem gerðar voru í kjölfarið og enn eru í gangi kemur berlega í ljós að umrætt malbik stóðst ekki útboðskörfur Vegagerðarinnar.  Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem sköpuðust á slysstað.

Við starfsmenn Vegagerðarinnar erum harmi slegin yfir slysinu og því að slíkar aðstæður hafi getað skapast við venjubundið viðhald á vegum. Í framhaldi af þessu hafa allir hlutar umrædds verks verið fjarlægðir utan einn sem sannarlega stóðst kröfur til viðnáms. Verkið sem um ræðir var framkvæmt af verktaka með mikla reynslu. Sú reynsla kom því miður ekki í veg fyrir þær afleiðingar sem við öll þekkjum.

Vegagerðin vinnur nú að umfangsmikilli endurskoðun á öllum ferlum sem lúta að yfirlögnum á vegakerfinu.  Markmið þeirrar vinnu er að tryggja að slys sem þetta geti ekki komið fyrir aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert