Knattspyrnukonan smitaðist úti, ekki heima

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir öruggt að knattspyrnukonan í Breiðabliki hafi smitast í Bandaríkjunum en ekki heima á Íslandi, eins og sagt var að kynni að vera. Gengið var úr skugga um þetta með raðgreiningu á veirunni í knattspyrnukonunni og samanburði við niðurstöður raðgreiningar á veirum einstaklinga sem hún hafði átt samskipti við.

Knattspyrnukonan kom til landsins 17. júní, greindist ekki með veiruna og lifði virku félagslífi í átta daga, þar til hún fékk ábendingu um að herbergisfélagi hennar vestanhafs hefði greinst með veiruna. Þá fór hún aftur í próf, reyndist vera með hana og í hönd fór ferli þar sem fleiri hundruð manna þurftu að fara í sóttkví, bæði vegna hennar og þeirra sem hún hafði smitað. Nú hefur verið skimað eftir veirunni í sex hundrað manns sem höfðu verið í umhverfi knattspyrnukonunnar frá því að hún kom til landsins.

Skimun fækkar tilfellum um 75%, samkvæmt takmarkaðri tölfræði

Kári segir í facebookfærslu að draga megi þá ályktun af þessu máli að veiruprófið sé ekki fullkomið: „Þessi saga opinberar einn af veikleikum þess sem er að mjög snemma í sýkingu, áður en veiran er búin að ná almennilega fótfestu, er erfitt að finna hana. Næmi prófsins er hins vegar töluvert meira en 70% og prófið dugði okkur til þess að hemja fyrsta kapítula faraldursins fljótar og betur en flestir.“

Hann segir að engu síður minnki skimun á landamærunum mjög líkurnar á að smitandi einstaklingar komist inn í landið án þess að fara í einangrun. „Við höfum til þessa náð þremur og misst einn þannig að af okkar takmörkuðu reynslu hefur skimunin fækkað tilfellum um 75%,“ skrifar Kári. 

PCR-prófin eru eins og Kári segir ófullkomin, enda þarf veiran að ná að fjölga sér nægilega í líkamanum til þess að hún birtist í skimuninni. Rétt eins og ofangreind knattspyrnukona greindist ekki þó að hún væri smituð greindust lögreglumenn á Suðurlandi ekki heldur fyrr en nokkrum dögum eftir smit. Sam­skipt­i þeirra við smitaða voru á fimmtu­degi, þeir fóru í sýna­töku á mánu­degi, greind­ust þá ekki með veiruna, en fóru aft­ur í sýna­töku þrem­ur dög­um síðar og greind­ust þá með hana.

Stöðuuppfærsla Kára: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert