„Þurfum að hugsa þetta upp á nýtt“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hugsa þurfi landamæraskimun upp á nýtt eftir að Íslensk erfðagreining tilkynnti að fyrirtækið muni láta af skimun mánudaginn 13. júlí. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sendi í dag Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þar sem hann tilkynnti henni að þætti Íslenskrar erfðagreiningar í skimun á kórónuveirunni er lokið eftir 13. júlí. 

Þórólfur segir lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu. 

„Þetta setur strik í reikninginn. Klárlega. Það lítur allt út fyrir það að við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt. Við þurfum að ráða ráðum okkar núna með okkar fólki hvernig þetta verður,“ segir Þórólfur og bætir við að viðeigandi aðilar eigi eftir að ræða tíðindin, enda séu þau nýtilkomin. 

Hann segir þó ljóst að veirufræðideild Landspítalans geti ekki fyllt upp í skarð Íslenskrar erfðagreiningar á landamærunum eins og staðan er núna. Kári hefur sagt að yfirvöld eigi að geta komið upp fullnægjandi aðstöðu fyrir landamæraskimun á þeim vikufresti sem þau hafa þar til Íslensk erfðagreining lætur af skimun. 

„Hún getur ekki sinnt eins mörgum sýnum og Íslensk erfðagreining hefur gert fram að þessu. Íslensk erfðagreining hefur náttúrulega staðið sig gríðarlega vel og við stöndum í mikilli þakkarskuld við þau. En veirufræðideildin getur ekki sinnt þessum fjölda sýna svo við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt.“

mbl.is