Farþegafjöldi engum takmörkum háður

Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu.
Páll Þórhallsson verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lok síðustu viku voru flugfélög farin að fljúga langt fram eftir miðnætti til landsins af þeim sökum að sýni höfðu verið tekin hjá svo mörgum ferðamönnum daginn áður að greiningargeta Landspítalans bauð ekki upp á að fleiri færu í skimun við komuna til landsins. Þetta kom fram í máli Páls Þórhallssonar, verkefnastjóra í forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Spurður hvort fjöldi þeirra sem koma til landsins sé takmarkaður sagði Páll:

„Ekki í lögum eða reglum sem mér kemur í hug og í raun og veru hefur það kannski aldrei verið þannig undanfarna mánuði.“

Rögnvaldur Ólafsson sést hér til vinstri ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.
Rögnvaldur Ólafsson sést hér til vinstri ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Ljósmynd/Lögreglan

Ísland „fórnarlamb eigin velgengni“

Áður hefur verið rætt um að ekki megi fleiri en 2.000 manns koma hingað til lands daglega þar sem greiningargeta Landspítalans á sýnum úr landamæraskimun er takmörkuð við þann fjölda. Farþegafjöldi hefur að undanförnu aukist meira en spár gerðu ráð fyrir, að sögn Rögnvalds Ólafssonar, aðal­varðstjóra hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra. 

„Það var einhver sem sagði um daginn að við værum fórnarlamb eigin velgengni. Vegna þess að það gengur svona vel hjá okkur og vel talað um Ísland þá er áhuginn meiri en spár gerðu ráð fyrir,“ sagði Rögnvaldur á upplýsingafundi almannavarna.

„Ástæðan fyrir því að það komu fáir farþegar var sú að flugfélög voru ekki að fljúga til landsins og ef menn komu þá þurftu þeir að koma í sóttkví svo fáir höfðu áhuga. Það hefur í sjálfu sér ekki verið og er ekki enn neitt sem takmarkar farþegafjölda til landsins en eins og við fórum yfir áðan var Isavia látið vita að við réðum ekki við meira en samtals 2.000 sýni daglega og Isavia með sínum úrræðum í samspili við flugfélögin sá til þess að það kæmu ekki fleiri til landsins og eftirspurnin var ekki þannig að það væri vandamál,“ sagði Páll. 

Eftirspurnin orðin vandamál

Eftirspurnin er þó búin að aukast það mikið að hún er orðin að vandamáli og hefur sóttvarnalæknir tilkynnt að farþegar frá sex löndum verði brátt undanskildir skimun. 

„Í lok síðustu viku voru menn farnir að fljúga fram eftir nóttu og langt fram eftir miðnætti vegna þess að kvóti þess dags var búinn og menn fóru yfir á næsta dag. Það var ekki alveg búið að sjá þetta fyrir í mönnuninni á heilsugæslunni en eins og Óskar [Reykdal forstjóri heilsugæslunnar] sagði hefur fólk þar gert það sem þurft hefur þegar þær aðstæður hafa skapast. Niðurstaðan af þessari skoðun var sú að það væri ekki hægt að komast lengra í stýringu [farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli] með aðstoð samræmingarstjóra.“

mbl.is