Fjallað um Icelandair

Icelandair er til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum.
Icelandair er til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á forsíðu vefútgáfu þýska stórblaðsins Frankfurter Allgemeine má nú lesa grein um vendingar á vettvangi Icelandair síðustu daga. „Icelandair byrjaði á að reka allar flugfreyjur sínar - núna eru þeir hættir við,“ segir í fyrirsögninni. 

Í fréttinni er atburðarás síðustu daga rakin nokkuð nákvæmlega og tónninn er þesslegur að flugfélagið hafi á endanum gefið eftir í viðræðunum. „Frá og með mánudeginum áttu flugmenn hins íslenska flugfélags ekki aðeins að sjá um að fljúga, heldur áttu þeir að taka að sér þjónustu um borð í vélinni. Samningaviðræður við flugfreyjufélagið höfðu runnið út í sandinn. En núna dregur félagið í land,“ segir í fréttinni.

Í nótt var tilkynnt um að kjarasamningur hefði náðst við Flugfreyjufélag Íslands, sem báðir aðilar binda vonir við að verði samþykktur, ólíkt þeim fyrri. Eins og Frankfurter Allgemeine segir eru áform um að flugmenn gangi í þjónustustörf þar með slegin útaf borðinu. 

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hefur sagt við mbl.is að í samningnum felist viðbótarhagræðing fyrir félagið, frá því sem var í fyrri samningnum. Sá var felldur í atkvæðagreiðslu meðal flugfreyja í lok júní.

Náið fylgst með Icelandair

Í umræddri grein segir að eins og önnur fyrirtæki í fluggeiranum sé Icelandair í vandræðum vegna samdráttar í flugumferð. Félagið hafi í ljósi stöðunnar boðað fjárhagslega endurskipulagningu og í kjölfarið hlutafjárútboð, sem fer fram um miðjan ágúst. 

Nýir kjarasamningar við flugfreyjur og flugmenn hafi verið liður í þessari endurskipulagningu enda hefðu sérfræðingar bent á að fyrirtækið væri síður samkeppnishæft á alþjóðamarkaðnum vegna þess laun þessara stétta væru yfir meðallagi hjá því.

Í hlutafjárútboði stendur til að safna á þriðja tug milljarða íslenskra króna, bæði frá innlendum og erlendum fjárfestum. Nýir kjarasamningar hafa verið sagðir nauðsynlegir til að laða fjárfesta að. Strax í nótt var send út tilkynning til kauphallar eftir að tókst að semja og ljóst er af umfjöllun í Frankfurter Allgemeine og í öðrum miðlum að náið er fylgst með Icelandair í aðdraganda útboðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert