Icelandair þarf að endurbyggja traustið

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. mbl.is/Alexander

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ), segir það ekki koma á óvart að kjarasamningur félagsins við Icelandair hafi verið samþykktur með miklum meirihluta.

Já, sögðu 678 eða 83,50%. Nei, sögðu 109 eða 13,42%. Auðir seðlar voru 25 eða 3,08%.

„Þetta er í takt við það sem við höfum fundið hjá okkar félagsmönnum,“ segir Guðlaug og bætir við að kjörsóknin, 88,17%, sé frábær. Þessi fjöldi beri merki um ábyrgð og áhuga félagsmanna á því að hafa eitthvað að segja um kaup sín og kjör.

„Það er nokkuð ljóst að félagsmenn okkar eru sammála mati stjórnar og samninganefndar um að það besta í ömurlegri stöðu væri að semja. Með þessu eru félagsmenn líka að standa á bak við stéttarfélagið. Svona höfum við eitthvað um kaup okkar og kjör að segja í framtíðinni,“ bætir hún við.

Traust flugfreyja og flugþjóna í garð atvinnurekanda síns hefur skaðast, segir Guðlaug, sem vonast til að stjórnendur Icelandair sýni núna vilja til að endurbyggja það traust sem áður var fyrir hendi. „Með þessu erum við að leggja okkar lóð á vogarskálarnar við að koma félaginu út úr þeim hremmingum sem það var í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert