Raðgreining sýnir að hópsýkingin er dreifð

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Mynd/mbl.is

„Það lítur út fyrir það að það sé enn einn einstaklingur úti í samfélaginu með veiru með þessu stökkbreytingarmynstri sem fannst í hópsmitinu uppi á Akranesi, hjá frjálsíþróttastráknum og pabbanum á Rey Cup,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is.

„Þannig að nú eru þetta orðnir fjórir hópar, smitaðir af sömu veirunni og við vitum ekki hvernig þeir tengjast,“ bætir Kári við.

„Yrði mjög hissa“ ef ekki verður hert á takmörkunum

Niðurstaða fundar samráðshóps í gærkvöldi var sú að beðið yrði eftir frekari niðurstöðum og gögnum, þar á meðal eftir gögnum úr raðgreiningu frá Íslenskri erfðagreiningu áður en ákvörðun yrði tekin um næstu skref. Hópurinn myndi funda aftur í dag og taka ákvörðun. Þeim fundi er lokið og niðurstaðan sú að sóttvarnalæknir mun skila tillögum til heilbrigðisráðherra

Gögn frá Íslenskri erfðagreiningu staðfesta að fjórði einstaklingurinn er með veiru sem er með sama stökkbreytingarmynstur og áðurnefndir þrír einstaklingar en ekki er hægt að sýna fram á hvernig þeir smituðust. Kári telur það þýða að fjöldi annarra sé ógreindur en sýktur.

„Ég yrði mjög hissa ef það yrði ekki. Það hlýtur að vera fjöldinn allur af einstaklingum sem eru smitaðir sem tengja saman þessa fjóra aðila,“ segir Kári spurður að því hvort hann telji líklegt að samfélagstakmarkanir verði hertar.

Hann bætir því við að hann muni styðja allar ákvarðanir sem heilbrigðisyfirvöld taka af heilum hug. „Vegna þess að við erum á því augnabliki að við eigum öll að snúa bökum saman.“

ÍE skimar óháð hvaða ákvarðanir yfirvöld taka

Kári segir misskilnings hafa gætt í fréttaflutningi í gær og dag þegar sagt var frá því að Íslensk erfðagreining myndi ekki skima nema yfirvöld myndu herða reglur. Hann segir að fyrirtækið muni skima sama hvaða ákvarðanir verða teknar af yfirvöldum.

„Þau eiga bara að taka þær ákvarðanir sem eru réttar en mér finnst persónulega á þessu augnabliki að þetta sé nægilega ógnvekjandi og mér myndi líða betur ef þau tækju þá ákvörðun að herða töluvert þessar aðgerðir,“ segir hann og bætir við:

„Við erum hluti af liði sem vinnur fyrir sóttvarnayfirvöld og þau taka sínar ákvarðanir og eiga ekki að láta mig eða nokkurn annan snúa upp á höndina á sér. En ég vona svo sannarlega að þau geri það en sama hvaða ákvörðun þau taka þá styð ég þau í því og við komum til með að gera allt sem við getum við að hjálpa við að ná böndum á þeim faraldri sem er í gangi núna.“

Skima almennt og markvisst í kringum sýkta 

Íslensk erfðagreining ætlar að í fyrsta lagi að skima slembiúrtak úr Reykjavík og af Akranesi til að kanna hver dreifing veirunnar er almennt á þessum tveimur stöðum. 

Í öðru lagi ætlar fyrirtækið að skima markvisst í kringum þá einstaklinga sem hafa smitast til að kanna þá útbreiðslu í kringum þessa fjóra aðila sem eru með veiru með stökkbreytingamynstur sem ekki hefur sést áður. Einn af þeim aðilum er farandverkamaður á Akranesi og hinir þrír eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Fólk sem þykir vænt um sitt samfélag

Spurður hvort hann viti hversu umfangsmikil skimunin verður segir hann það skipta mestu máli núna að gera hlutina hratt. Fjöldinn fari eftir því hversu margir skrái sig í skimun og hversu vel „duglega fólkinu í þjónustumiðstöðinni í Turninum“ gengur að taka sýni.

„Það voru allir í sumarfríi í gær en það tók ekki nema örfáar símhringingar til að safna saman milli 20 og 30 manns sem komu úr sumarfríi til að sinna þessu verkefni. Mér finnst það alveg hrikalega flott. Þetta er duglegt fólk sem þykir vænt um sitt samfélag og það eru ótrúleg forréttindi að vinna með þeim,“ segir Kári að lokum.

Kári er mjög stoltur af sínu fólki.
Kári er mjög stoltur af sínu fólki. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is