Grímuskyldu í Strætó haldið til streitu

Frá klukkan 12 í dag verður grímuskylda í Strætó.
Frá klukkan 12 í dag verður grímuskylda í Strætó. mbl.is/Valli

Strætó hefur tekið ákvörðun um að halda andlitsgrímuskyldu um borð í strætisvögnum til streitu, þrátt fyrir þau ummæli Ölmu D. Möller landlæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns í gær um að ekki þyrfti að nota grímur í strætisvögnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó bs. og þar segir að grímuskylda verði innleidd frá klukkan 12:00 í dag.

Túlkuðu „almenningssamgöngur“ á annan hátt

Á blaðamannafundi stjórnvalda kom fram að þar sem ekki væri hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga yrði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Kom fram að þetta ætti við til dæmis við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur.

„Strætó túlkaði reglurnar þannig að hugtakið „almenningssamgöngur“ ætti við um strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu og vinna fór af stað í samræmi við það. Síðar um daginn kemur fram hjá almannavörnum að Strætó á höfuðborgarsvæðinu sé undanþeginn grímuskyldunni, þar sem ferðir séu styttri og að fólk ætti frekar að halda 2ja metra fjarlægð um borð í vögnunum,“ segir í tilkynningunni.

„Til að geta tryggt 2ja metra fjarlægð í strætó, þá mega aðeins 20 viðskiptavinir vera um borð í einu. Framangreint ferli gekk ágætlega í hápunkti samkomubannsins í mars, en þá hafði farþegum fækkað um 60-70%. Annað er upp á teningnum í dag. Um 30.000 manns nota Strætó daglega og miðað við þann farþegafjölda þá telur Strætó sig ekki geta tryggt 2ja metra fjarlægð um borð í vögnunum,“ segir þar jafnframt.

mbl.is

Bloggað um fréttina