Mikilvæg vika fram undan

Meirihluti þeirra smita sem greind voru í gær er meðal fólks sem ekki er í sóttkví en alls voru greind 13 ný smit á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Eitt smit var greint á landamærunum en ekki liggur fyrir hvort viðkomandi var með virkt smit.

Vikan fram undan er mikilvæg segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Hann minnir á nauðsyn einstaklingsbundinna sóttvarna.  

Már segir að flökt hafi verið á fjölda nýrra smita undanfarna daga og alls ekki um veldisvöxt að ræða. Ef svo hefði verið væru ný smit í dag 40 til 50. Framvindan í þeirri viku sem nú er að hefjast mun verða mikilvæg. „Ef það á fyrir okkur að liggja að þetta verði einhver ósköp og óheft smit í samfélaginu munum við sjá stöðugt hærri tölur og það jafnvel í stökkum. Ef þetta verður áfram svona, það er frekar fá smit, held ég að þetta sé í góðu horfi,“ segir Már.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Hann minnir á að allir þeir sem greinast með smit eigi fjölskyldur eða einhverja að og í flestum fjölskyldum eru einhverjir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Það sýni okkur hversu mikilvægar einstaklingsbundnar sóttvarnir eru. „Það er það sem mun vinna þessa baráttu. Ekkert annað,“ segir Már. 

Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur.

„Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er mælt með almennri grímunotkun á almannafæri og að rök og skítug gríma gerir ekkert gagn og getur aukið sýkingahættu. Jafnframt gerir einnota gríma, sem notuð er oftar en einu sinni, ekkert gagn og getur einnig aukið sýkingarhættu. Hlífðargríma, sem hylur ekki bæði nef og munn eða er höfð á enni eða undir höku, gerir heldur ekkert gagn,“ segir á upplýsingavef landlæknis, covid.is.

Á hádegi á föstudag tóku gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa í tvær vikur, út 13. ágúst nk. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt. Hertar aðgerðir fela meðal annars í sér:

• Takmörkun á fjölda sem kemur saman miðast við 100 einstaklinga. Börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin.

• Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi verði viðhöfð sú regla að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

• Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga er krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að uppfylla kröfur sem settar eru fram í leiðbeiningum sóttvarnalæknis.

• Vinnustaðir, opinberar byggingar, verslanir og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi skipuleggi starfsemi sína í samræmi við ofangreint og tryggi að ekki séu fleiri en 100 einstaklingar í sama rými og að í minni rýmum séu ekki fleiri en svo að hægt sé að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga.

• Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi tryggi aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa, sinni vel þrifum og sótthreinsun yfirborða eins oft og unnt er og minni almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir með merkingum og skiltum.

• Sundlaugar og veitingastaðir tryggi að gestir geti haft 2 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

• Sóttvarnalæknir leggur til að starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

• Sóttvarnalæknir leggur til að söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

• Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verður áfram til kl. 23:00.

mbl.is

Bloggað um fréttina