Þurfa smit í 15 til 20 daga í röð

Thor Asperund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Thor Asperund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Lögreglan

Mögulegt er að drög að nýju spálíkani vegna kórónuveirufaraldursins hér á landi verði kynnt í lok þessarar viku. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir að fleiri dagar þurfi að líða áður en hægt verður að fullvinna spálíkanið. 

Thor segir að búast megi við því að drög að líkaninu verði sýnt í samhengi við þróun fyrri bylgju veirunnar hér á landi. „Svo kemur kannski nýtt eftir helgi, þetta er enn þá svolítið viðkvæmt. Það þarf um 15 til 20 daga af smitum í röð til að geta séð hvernig þetta er. Núna er meira tilefni til að sýna hvernig þetta lítur út og þá í samhengi við hvernig þetta var síðast,“ segir Thor. 

Hann segir að við vinnslu fyrra líkans hafi liðið 20 dagar áður en hægt var að spá fyrir um hvenær veiran gæti náð hápunkti, en við vinnslu nýs líkans er miðað við 23. júlí og því þurfi áfram að bíða eftir frekari tölfræði. 

Thor segir að líkanið sé einnig unnið með tilliti til þróunar í öðrum löndum. 

„Við reynum þá að læra eitthvað af því bæði hvernig þetta þróaðist hér og hvernig þetta er að fara aftur af stað í löndunum í kring. Þess vegna þurfum við að skoða öll lönd aftur, hvar þetta er farið af stað og hvar ekki. Við þurfum að flokka þetta niður og sjá hverjir eru á svipuðum stað og við, það er mjög breytilegt,“ segir Thor. 

Ekki framhald af fyrri bylgju veirunnar 

Thor segist ekki hafa búist við annarri bylgju veirunnar fyrr en í haust. 

„Ég bjóst ekki við þessu alveg svona fljótt, ég hélt að sumarið myndi kannski líða aðeins á þess að þetta færi aftur af stað og að þetta kæmi nær haustinu. Þetta kemur kannski aðeins á óvart,“ segir Thor. 

Hann telur þó að um sé að ræða aðra bylgju fremur en framhald af fyrstu bylgju veirunnar. 

„Ég tek því þannig að hún [veiran] hafi verið raunverulega horfin í júlí og svo komið upp aftur. Ég lít á það þannig að landið hafi verið laust, að hún hafi ekki bara legið einhvers staðar og skotist aftur upp,heldur hafi einhver komið inn með hana. Það voru klár kaflaskil alveg í júlí. Það var alltaf viðbúið að þetta kæmi upp aftur, en kannski ekki alveg svona snemma hélt ég,“ segir Thor. 

mbl.is