Íbúinn á Hrafnistu reyndist ekki smitaður

Ekki reynist um smit að ræða á Hrafnistu, en upp …
Ekki reynist um smit að ræða á Hrafnistu, en upp kom grunur um slík. mbl.is

Niðurstaða er komin úr greiningu á sýni úr íbúa á Hrafnistu sem grunur lék á að væri smitaður af covid-19. Ekki er um smit að ræða og hefur sóttkví á deildum Hrafnistu Mánateigi og Sólteigi verið aflétt. Þá hefur viðbúnaðarstig aftur verið fært niður í samræmi við niðurstöðuna.

María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu og starfandi forstjóri, segir í samtali við mbl.is að það sé gríðarlegur léttir að sýnið hafi reynst neikvætt. Þrátt fyrir það verða áfram miklar varúðarráðstafanir á heimilunum og hefur hún áhyggjur af stöðunni. „Eftir því sem smitum fjölgar í samfélaginu aukast líkur á að þau komi til okkar. Við höfum því enn miklar áhyggjur,“ segir María og bætir við: „Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær smit berst til okkar [á Hrafnistuheimilin].“

Með því að fara aftur niður á fyrri viðbragðsáætlun getur nú einn aðstandandi í einu komið á heimsóknartímum, en María segir að biðlað sé til aðstandenda að velja einn úr hverri fjölskyldu til heimsókna og að viðkomandi haldi sjálfur sem mestri sóttkví. Þannig segir hún að hægt sé að viðhalda sem bestum sóttvörnum.

mbl.is