Vaktin í rólegri kantinum

Fjórir starfsmenn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa fært sig um set og …
Fjórir starfsmenn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa fært sig um set og eru nú til húsa í húsnæði flugbjörgunarsveitarinnar. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Síðasti sólarhringur var í rólegri kantinum hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en alls voru 64 útköll á sjúkrabíl, þar af 14 í forgangi og þrír flutningar tengdir COVID-19.
„Um helgina tókum við í notkun aðstöðu í húsnæði flugbjörgunarsveitarinnar fyrir fjóra starfsmenn og tvo sjúkrabíla. Tilgangurinn með þessu er að minnka líkur á smitum okkar á milli. Því ef við skiptum vöktum upp á fleiri stað og takmörkum aðgang þeirra á milli þá missum við færri úr vinnu kæmi upp smit hjá okkur.
Einnig hafa verið gerðar breytingar í Skógarhlíðinni, þ.e. búið að skipta vaktinni meira upp og takmarka aðgang milli þeirra. Allt er þetta gert til að tryggja öryggi okkar framlínuheilbrigðisstarfsmanna og til að geta tryggt órofna þjónustu við ykkur.
Hjálpumst því að, virðum tveggja metra regluna, handþvott og handspritt og samfélagssáttmálann,“ segir á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
mbl.is