Ekki auðveld ákvörðun

Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru mikil vonbrigði að vera í þessari stöðu og það er ekki auðvelt að ákveða eitthvað svona. Staðan í löndunum í kringum okkur er einfaldlega sú að veiran er í vexti og það eitt og sér hefur augljóslega mikil áhrif á ferðavilja fólks,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra um ákvörðun stjórnvalda um tvöfalda skimun og sóttkví fyrir alla ferðamenn.

Hún segir ríkisstjórnina hafa verið sammála um að þetta sé sú aðgerð sem nauðsynlegt sé að grípa til á þessum tímapunkti.

Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum sem fór fram í dag.
Blaðamannafundur vegna skimana á landamærunum sem fór fram í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum verið mjög skýr með að fylgja tillögum og fyrirmælum sóttvarnayfirvalda og að forgangsraða heilsu og velferð almennings og þetta var talið besta skrefið sem hægt var að taka á þessum tímapunkti, vonandi er það tekið til skamms tíma.“

Verði endurskoðað sem fyrst

Þórdís segir það vissulega rétt að ráðstafanirnar muni hafa mikil áhrif á ferðaþjónustu í landinu en hún vonast til þess að hægt verði að setja einhver lönd á grænan lista, sem þýðir þá einfalda sýnatöku fyrir þá sem þaðan koma, sem fyrst.

„Ég hef lagt mjög mikla áherslu á það að þetta verði endurskoðað og það rætt hvenær megi slaka á þessari ráðstöfun að nýju. Við náttúrulega miðum að því að ganga ekki lengra en þörf þykir á hverjum tíma, þannig nákvæmlega hvenær verður slakað á þessari ráðstöfun verður bara að koma í ljós en það þarf að endurskoða þetta fljótt og þá reglulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert