Ófullnægjandi grímur seldar í góðri trú

Grímusala hefur stóraukist síðustu mánuði og fyrirtækjum í grímusölu samhliða …
Grímusala hefur stóraukist síðustu mánuði og fyrirtækjum í grímusölu samhliða því. mbl.is/Kristinn Magnússon

Neytendastofu hafa borist hundruð ábendinga frá því í mars um grímur sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Þetta segir Guðrún Lárusdóttir, gæðastjóri hjá Neytendastofu.

Grímur sem seldar eru almenningi sem persónuhlífar þurfa að vera CE-vottaðar, samkvæmt Evrópustaðli, til að selja megi þær sem vörn gegn veirum og hefur Neytendastofa eftirlit með að kröfur séu uppfylltar. Séu grímurnar ætlaðar heilbrigðisgeiranum eða í aðra atvinnustarfsemi er eftirlit hins vegar á höndum annarra.

Guðrún segir að tilkynningarnar hafi verið flestar í upphafi faraldurs enn enn berist margar tilkynningar. „Þegar þetta byrjaði í mars var bara engin menning fyrir grímum á Ísland eða í Evrópu. Við höfum séð fólk frá Asíu nota grímur en það þekktist ekki hér.“ Því hafi verið eðlilegt að fyrirtæki, jafnvel apótek, settu í sölu ófullnægjandi grímur án þess að vita betur.

Raunar segir hún að engin dæmi hafi komið upp þar sem fyrirtæki eru staðin að verki við að selja ófullnægjandi grímur vísvitandi. „Þegar við látum þau vita er aldrei neitt vesen. Fólk er bara fegið að það setti þær ekki á markað.“

Þessi mynd var tekin í apríl. Þá sást varla nokkur …
Þessi mynd var tekin í apríl. Þá sást varla nokkur maður með grímu á almannafæri hér á landi, nema ef vera skyldi erlendir ferðamenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getur verið erfitt að sannreyna vottun

CE-vottun er alhliða vottunarmerki Evrópusambandsins og gefur til kynna að varan uppfylli þartilbærar kröfur til að selja innan Evrópska efnahagssvæðisins. CE-merkið á að vera á persónuhlífum eins og andlitsgrímum og á að vera staðfesting á því að varan uppfyllir lágmarkskröfur fyrir heilsu og öryggi neytendans.  

Sumar þeirra ófullnægjandi gríma, sem hafa verið gerðar upptækar hér, bera ekki CE-merkið svo auðvelt er að koma auga á þær. „En við höfum oft rekið okkur á að það er auðvelt að setja CE-merkið á þótt vörur uppfylli ekki kröfurnar,“ segir Guðrún.

Mikið hefur mætt á starfsfólki Neytendastofu við að sannreyna ábendingar sem berast. Stofnunin getur skoðað svokallaðar samræmisyfirlýsingar, prófunarskýrslur sem framleiðendur rétt framleiddra gríma eiga að skila til að fá CE-vottun. Hins vegar er engin aðstaða hérlendis til að prófa grímur. Von er á að bragarbót verði gerð á því innan skamms því Evrópusambandið mun styrkja verkefni Neytendastofu, Umhverfisstofnun og Vinnueftirlitsins, þar sem prófaðar verða ýmsar tegundir gríma og handspritts ætlaðar almenningi.

mbl.is