Taka strax á móti pöntunum í skimun

Annar starfsmannanna sem reyndist smitaður starfaði í aðalbyggingu Háskóla Íslands.
Annar starfsmannanna sem reyndist smitaður starfaði í aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Eðlilega eru margir kvíðnir í ljósi stöðunnar,“ skrifar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í orðsendingu til starfsfólks og stúdenta í dag. Tveir starfsmenn HÍ greindust smitaðir í gær og sagði Þórólfur Guðnason í samtali við mbl.is í dag að 4-5 smit sem greinst hafa síðustu daga mætti tengja við HÍ. 

Strax í dag munu nemendur og starfsfólk háskólans geta pantað gjaldfrjálsan tíma í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fyrirtækið mun einnig skima nemendur og starfsfólk Háskólans í Reykjavík. 

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég hvet ykkur til að nýta þetta mikilvæga boð. Með þessum skimunum munum við geta kortlagt stöðuna í Háskóla Íslands,“ skrifar Jón Atli. 

Því miður voru tvö ný COVID-19-smit staðfest meðal starfsmanna Háskóla Íslands í gær, annað í Aðalbyggingu en hitt hjá starfsmanni með skrifstofu í Odda. Þótt staðan sé vissulega þyngri en við hefðum kosið þá leggjast allir á eitt við að draga úr hættu á frekari útbreiðslu veirunnar. Smitrakningarteymi almannavarna hefur farið vandlega yfir stöðuna og þeim hefur því fjölgað nokkuð sem eru í sóttkví. Starfsfólk er beðið um að tilkynna um sóttkví eða smit til næsta yfirmanns.“

Fullnaðarsigur með æðruleysi og seiglu

Jón Atli hvetur þá starfsmenn og stúdenta HÍ sem eru kvíðnir til að nýta gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu skólans. 

„Ég ítreka sömuleiðis áherslu á persónubundnar smitvarnir og fylgni við reglur almannavarna. Verum heima ef minnstu einkenna verður vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis, verum ábyrg og hugsum á eins jákvæðan hátt og okkur er kostur í þessari stöðu sem er einungis tímabundin,“ skrifar Jón Atli. 

Við höfum sýnt æðruleysi og seiglu í gegnum allt þetta ferli og þannig vinnum við fullnaðarsigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert