Brjóti gegn barnasáttmálanum

Íslandsdeild Amnesty International fordæmir hörku og ómannúðlega framkomu íslenskra stjórnvalda.
Íslandsdeild Amnesty International fordæmir hörku og ómannúðlega framkomu íslenskra stjórnvalda. Ljósmynd/Amnesty

Íslandsdeild Amnesty International fordæmir harkalega og ómannúðlega framkomu íslenskra stjórnvalda í garð barna á flótta. Þetta segir í yfirlýsingu frá félaginu. Framferði stjórnvalda sé andstætt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Á síðustu árum hafi ítrekað komið upp mál þar sem til hefur staðið að vísa börnum úr landi sem hafa dvalið hér í lengri tíma og náð að skjóta rótum í íslensku samfélagi, eins og það er orðað í yfirlýsingunni.

„Framferði íslenskra stjórnvalda er andstætt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna en samkvæmt samningnum ber stjórnvöldum að tryggja að hagsmunir barna hafi forgang þegar gripið er til ráðstafana sem varða börn,“ segir í yfirlýsingunni og er sérstaklega vísað í 1.mgr. 3.gr. sáttmálans, sem hljóðar svo:

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

mbl.is