Grímuskylda í HR

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík.

Grímuskyldu verður innan bygginga Háskólans í Reykjavík frá og með morgundeginum. Þetta kemur fram í tölvupósti til nemenda sem sendur var í dag. Nemendum og starfsfólki verður skylt að bera grímu í skólastofum, les- og vinnurýmum og öðrum sameiginlegum rýmum.

Í póstinum segir að ákveðið hafi verið að grípa til ráðstafana vegna fjölgunar smita í samfélaginu undanfarna daga. Sex nemendur við Háskólann í Reykjavík, hið minnsta, hafa greinst með kórónuveiruna undanfarna daga.

Sams konar reglur hafa ekki verið settar í Háskóla Íslands, en í orðsendingu Jóns Atla Benediktssonar rektors HÍ til nemenda fyrr í dag hvetur hann nemendur, kennara og starfsfólk þó til að nota grímu í byggingum skólans, sérstaklega þegar ekki er hægt að fylgja reglum um fjarlægðarmörk. Þá greindi hann frá því að grímum yrði dreift í byggingum skólans í byrjun viku.

Íslensk erfðagreining hefur boðið háskólanemum í skimun þeim að kostnaðarlausu og eru nemendur hvattir til að nýta sér hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert