„Ánægjulegt að sjá þessa fækkun“

Upplýsingafundur almannavarna og embættis landlæknis. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Upplýsingafundur almannavarna og embættis landlæknis. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekki er ástæða til að grípa til harðari aðgerða í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirunnar en gripið hefur verið til að undanförnu.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi almannavarna.

„Það er ánægjulegt að sjá þessa fækkun en við gætum fengið uppsveiflu og niðursveiflu. Það er eðli svona faraldra að gera það,“ sagði hann en innanlandssmitum fækkaði á milli daga úr 38 í 30.

„Tölurnar sveiflast á milli daga og við tökum þessu með jafnaðargeði og sjáum hvað gerist áfram,“ sagði hann.

Stór hluti þeirra sem hafa verið að greinast tengjast beint eða óbeint krám og skemmtistöðum.

Þórólfur sagði engan vera alvarlega veikan af völdum veirunnar en tveir liggja á sjúkrahúsi.

Veiran hefur verið að koma upp víðar en í vetur og þess vegna er erfiðara að kveða hana alveg niður með þeim aðgerðum sem eru til taks, sagði hann.

Hann sagði að komið hafi inn mikið af fyrirspurnum frá fyrirtækjum og einstaklingum varðandi leiðbeiningar í tengslum við fjarvinnu. Hann sagði erfitt að svara hratt og vel og benti þeim sem hafa haft samband um að máta sig aftur inn í aðstæðurnar sem voru upp í samfélaginu fyrr á árinu vegna veirunnar.

Hann sagði mikilvægt að fyrirtæki bjóði starfsmönnum eins mikla fjarvinnslu og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert