Lengi haft áhuga á refsiréttinum

Mette Yvonne Larsen spáir 13 til 15 ára dómi í …
Mette Yvonne Larsen spáir 13 til 15 ára dómi í Mehamn-málinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Mér finnst þetta bara hafa gengið ágætlega í vikunni. Ég er mjög sátt við héraðsdómarann [Kåre Skognes] og hvernig hann tekur á málinu, hvort tveggja hann og meðdómendur hans eru mjög faglegir.“

Þetta sagði Mette Yvonne Larsen, réttargæslulögmaður Elene Undeland og annarra brotaþola í Mehamn-málinu, í samtali við Morgunblaðið eftir að málflutningi lauk fyrir Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í gærkvöldi.

Kom að Breivik-málinu

„Ég hef unnið mikið með barnarétt en hef einnig alltaf verið mjög áhugasöm um refsirétt og reyndar ekki verið réttargæslulögmaður í mörgum málum, ég er oftast verjandi,“ sagði Larsen sem hefur marga fjöruna sopið í réttarsalnum, en hún var einn réttargæslumanna fórnarlamba Anders Behring Breivik eftir fjöldamorð hans í Ósló og í Útey sumarið 2011.

„Eftir að sprengjan sprakk á föstudeginum fékk ég símtal um miðjan dag á laugardeginum [23. júlí 2011] og svo var ég komin á fullt í þetta. Það mál var náttúrulega ákaflega þungt og margir sem áttu þar um sárt að binda,“ sagði Larsen, „ofbeldið hér hefur verið að aukast og eins er það orðið grófara að því er virðist alls staðar á Norðurlöndunum, það er helst að í Svíþjóð sé ástandið áberandi verst, þar eru svo margar skotárásir,“ sagði Larsen. „Varðandi þetta mál núna stend ég við það sem ég sagði við þig þegar við töluðum saman í janúar, 13 til 14 ára fangelsisdóm hið minnsta og verði einnig sakfellt fyrir hótanirnar gæti endanleg niðurstaða orðið 14 eða 15 ár,“ sagði Mette Yvonne Larsen réttargæslulögmaður í samtali við Morgunblaðið í Vadsø í gærkvöldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert