Sleppa ekki grunuðum nema vera viss

„Við höfðum bara ekki þessar upplýsingar. Þið [fjölmiðlar] spyrjið okkur …
„Við höfðum bara ekki þessar upplýsingar. Þið [fjölmiðlar] spyrjið okkur endalaust út í atriði sem við eigum að svara og ef við höfum engin svör spyrjið þið hvort við getum staðfest hitt eða þetta og við getum það ekki alltaf, oft bara vegna rannsóknarhagsmuna,“ svaraði Anja Mikkelsen Indbjør þegar mbl.is spurði hana út í meinta vitneskju lögreglunnar um aðgang Gunnars Jóhanns Gunnarssonar að skotvopni sem stjórnendur rannsóknar Mehamn-málsins þrættu fyrir í fyrravor þrátt fyrir öruggar heimildir mbl.is um hið gagnstæða. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nokkra athygli hefur vakið að Anja Mikkelsen Indbjør, lögmaður og saksóknari lögreglunnar í Finnmörk, sem átti nokkur samtöl við mbl.is á fyrstu stigum Mehamn-málsins í fyrra, hefur síðan á mánudagsmorgun setið alla aðalmeðferð málsins við Héraðsdóm Austur-Finnmerkur í Vadsø.

„Það er einkum faglegur áhugi minn á refsimálum sem dregur mig hingað,“ sagði Indbjør í samtali við mbl.is í einu af mörgum réttarhléum í gær, „þetta er mjög lærdómsríkt fyrir mig sem fer með ákæruvald í mínu embætti að fylgjast með málflutningi [Torstein Lindquister] héraðssaksóknara í þessu máli.

Margt í málinu hefur vakið athygli mína allar götur síðan rannsókn þess hófst og þykir mér ekki síður mikilsvert að fjölmiðlafólk sýni málinu svo mikinn áhuga, ekki síst þið landar málsaðilanna, hér kemur auðvitað ýmislegt fram sem okkur var ekki á sínum tíma heimilt að gefa upp vegna rannsóknarhagsmuna,“ sagði Indbjør og gekk þess greinilega dulin að aðeins einn íslenskur fjölmiðill sá ástæðu til að senda fulltrúa sinn á vettvang dómsmálsins þrátt fyrir að Ísland teljist nú gult á Covid-skala norskra stjórnvalda.

Fengið fjölda fyrirspurna

Hvað sýnist saksóknaranum þá um mál vitnisins X, sem komið hefur við sögu í fréttum mbl.is undanfarna daga og lögregluembættið í Finnmörk hélt í gæsluvarðhaldi allt þar til lögmannsréttur, millidómstigið í Noregi, úrskurðaði að engin efni væru til að halda manninum lengur?

„Við teljum það skyldu okkar að sleppa ekki grunuðum einstaklingi eða einstaklingum úr haldi fyrr en við erum viss í okkar sök,“ svaraði Indbjør, „þarna var um manndráp að ræða og aukinheldur mjög alvarlegt mál. Auðvitað hef ég fengið fjölda fyrirspurna frá fjölmiðlum um hvers vegna [X] hafði stöðu grunaðs svo lengi, okkur var nauðugur einn kostur að ljúka rannsókn málsins okkar megin auk þess sem það var engan veginn okkar ákvörðun að sleppa manninum úr haldi, við þurfum að bera slíka ákvörðun undir héraðssaksóknara og hann undir ríkissaksóknara.“

„Fólk hefur sagt alls konar hluti við rannsókn þessa máls …
„Fólk hefur sagt alls konar hluti við rannsókn þessa máls og við getum auðvitað ekki slegið því föstu á hvaða tímapunkti ákærði gat útvegað sér skotvopnið,“ sagði saksóknari Finnmerkurlögreglunnar við mbl.is. Ljósmynd/Andrea Dahl/iFinnmark

Hvað þá með skotvopnið, haglabyssuna, sem stjórnandi rannsóknarinnar þvertók fyrir við íslenska og norska fjölmiðla í fyrravor að Gunnar Jóhann, ákærði í málinu, hefði haft aðgang að löngu fyrir morguninn örlagaríka auk þess sem Gísli Þór heitinn og Elena kærasta hans sögðu lögreglu að Gunnar hefði haft aðgang að vopninu?

Nú játaði Gunnar það í framburðarskýrslu sinni á mánudag að hann hefði ekki þurft annað að gera en að fara um borð í bát til að ná í haglabyssu sem fingraför hans og annars manns, sem hann hafði áður sýnt byssuna, fundust á. Hvers vegna neitaði lögreglan í Finnmörk því staðfastlega að Gunnar Jóhann hefði komist í hlaðna haglabyssu hvenær sem honum þóknaðist eftir að hafa verið dæmdur í nálgunarbann gagnvart Gísla Þór og Elenu og verið svo illa haldinn andlega að honum hefði nánast verið trúandi til hvers sem vera skyldi?

Ekki nóg með það heldur...

...ber að geta þess hér að blaðamaður mbl.is hafði fengið að heyra það frá fjórum heimildarmönnum við heimókn til Mehamn í júní í fyrra að Gunnari hefði verið í lófa lagið að verða sér úti um skotvopn óskaði hann þess.

„Fólk hefur sagt alls konar hluti við rannsókn þessa máls og við getum auðvitað ekki slegið því föstu á hvaða tímapunkti ákærði gat útvegað sér skotvopnið,“ svaraði Indbjør. „Við rannsóknina kom það fram að ákærði hefði líklega haft aðgang að þessu vopni um lengri tíma, það hafi verið um borð í þessum báti,“ sagði hún enn fremur.

Hvers vegna neitaði lögreglan því þá ítrekað við íslenska og norska fjölmiðla í maí í fyrra að Gunnar hefði komist í vopnið?

„Við höfðum bara ekki þessar upplýsingar. Þið [fjölmiðlar] spyrjið okkur endalaust út í atriði sem við eigum að svara og ef við höfum engin svör spyrjið þið hvort við getum staðfest hitt eða þetta og við getum það ekki alltaf, oft bara vegna rannsóknarhagsmuna. Ákærði var þarna með bát í láni frá öðrum Íslendingi og þar var þetta skotvopn. Við höfðum ekki vitneskju um það fyrr en á síðari stigum rannsóknarinnar,“ svaraði Indbjør að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert