Vissi ekki hvort Gunnari væri alvara

Kåre Skognes héraðsdómari, fyrir miðju, er hann setti réttarhöldin.
Kåre Skognes héraðsdómari, fyrir miðju, er hann setti réttarhöldin. Ljósmynd/Erik Brenli/iFinnmark

Vinir Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, sem er ákærður fyrir að hafa skotið hálfbróður sinn til bana í norska bænum Mehamn í fyrra, drógu hann út á lífið og ætluðu að reyna að hressa hann við kvöldið fyrir atburðinn.

„Ég talaði við hann tveimur klukkustundum áður en við fórum í bæinn. Hann sagði mér hvernig honum leið og að hann vildi drepa bróður sinn,“ sagði vinur Gunnars fyrir dómi í gær, að því er norski vefurinn NRK greindi frá.

Vinurinn sagðist ekki hafa áttað sig á hvort honum væri alvara eða ekki. „Mér fannst eins og hann vildi gera þetta, já, en að hugsa um það og langa til þess er ekki það sama og að framkvæma það,“ bætti hann við.

Vinurinn kvaðst ekkert muna í tengslum við byssuna sem Gísli Þór Þórarinsson var skotinn með en í yfirheyrslu daginn eftir atburðinn sagði hann Gunnar hafa sagst ætla að nota hana.

Gunnar segist ekki hafa myrt Gísla Þór. Hann segir að skot hafi hlaupið úr byssu sinni fyrir slysni.

mbl.is