Þrír íbúar Eirar smitaðir

Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi.
Hjúkrunarheimilið Eir að Fróðengi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrír íbúar á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi hafa greinst með kórónuveiruna. Unnið er að því að útbúa sérstaka COVID-deild á hjúkrunarheimilinu, að sögn Kristínar Högnadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunarsviðs. 

Eir hefur nú verið lokað fyrir heimsóknum gesta fram til 6. október, en staðan verður endurmetin næsta mánudag. 

Íbúi á hjúkrunarheimilinu greindist með kórónuveiruna á föstudag, en áður hafði starfsmaður greinst með veiruna. Í gærkvöldi greindust síðan tveir íbúar til viðbótar. Íbúarnir voru báðir í sóttkví við greiningu. 

Þrír íbúar eru því í einangrun og munu þeir flytjast á COVID-deild innanhúss við fyrsta tækifæri. Aðstandendum hefur öllum verið tilkynnt um aðstæður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert