„Höfuðborgarsvæðið er orðið sýkt svæði“

Beðið eftir skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Atli segir að íbúar …
Beðið eftir skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Atli segir að íbúar í hans landshluta ættu að geta lifað nánast eðlilegu lífi. mbl.is/Snorri Másson

Atli Árnason, læknir sem starfar á norðausturhorni landsins, segist undrandi að nýjar sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda séu ekki takmarkaðar við þau svæði þar sem þeirra er raunverulega þörf.

„Mér finnst þetta svolítil rörsýn. Og það gleymist að það er hægt að horfa í rörið báðum megin frá,“ segir Atli í samtali við mbl.is, og bendir á að í hans landshluta og á Austurlandi sé allt með tiltölulega kyrrum kjörum hvað faraldur kórónuveirunnar varðar.

Þar sé nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa í kringum töluna 10. Á höfuðborgarsvæðinu sé talan 230.

Gætu flogið til útlanda vandræðalaust

„Ef Íslandi væri skipt niður í svæði þá fengjum við í þessum landshlutum auðveldlega leyfi til að fljúga til Þýskalands og annarra landa, sem nú hafa sett ferðatakmarkanir á farþega frá Íslandi. Á sama tíma er höfuðborgarsvæðið svoleiðis eldrautt að farþegar þaðan fengju hvergi leyfi til að fljúga takmarkalaust á nokkurn stað,“ segir Atli.

Hann rifjar upp að fyrr á þessu ári, þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir, hafi hann og fleiri í landshlutanum beðið um að fá að afmarka sig. Þeirri hugmynd hafnaði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og sagði hana ekki þjóna tilgangi.

„Því var vægast sagt ekki vel tekið,“ segir Atli, „ekki frekar en hugmyndum um sérreglur nú.“

Hann varpar einnig fram þeirri spurningu hvort eðlilegt geti talist að fólk frá höfuðborgarsvæðinu geti flætt óhindrað um landið, þangað sem mun minna sé um smit.
Bendir hann á það ráð sem finnsk stjórnvöld gripu til í mars, að loka fjölmennasta héraði Finnlands, með höfuðborginni Helsinki.

Fari í próf fyrir komuna í landshlutann

„Höfuðborgarsvæðið er orðið sýkt svæði. Við verðum að horfast í augu við það. Þetta er eldrautt svæði á heimsmælikvarða,“ segir Atli.

„Akureyrarspítali og Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafa þegar ráðlagt starfsfólki frá því að ferðast til höfuðborgarsvæðisins, nema brýn nauðsyn sé fyrir því.

Almennt ætlast íbúar hér á svæðinu til að þeir sem komi frá sýktustu svæðunum fari varlega, komi þeir hingað, og íbúar hér hafa farið mjög varlega og af ábyrgð og atvinnulífið hér á svæðinu er með mjög stífar reglur, sérstaklega matvælaframleiðslan, til að vernda sig. Hvað er rangt við það að þeir sem fljúgi hingað inn á svæðið frá rauða svæðinu fari í próf áður, og eins þeir sem ætla að fara hingað á bíl eða annan hátt?“

Meðalhófsreglu ekki beitt

Hann segir að íbúar í hans landshluta ættu að geta lifað nánast eðlilegu lífi, ef ekki væri fyrir þær almennu takmarkanir sem nú hafa verið settar fyrir allt landið.

„Landshlutarnir fá ekki að njóta sérstöðu sinnar og fjarlægðarinnar frá höfuðborgarsvæðinu, þar sem þriggja vikna eltingaleikur hefur átt sér stað af hálfu sóttvarnayfirvalda, með slæmum árangri.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur áður sagt að við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum verði litið til meðalhófsreglunnar. Það er alveg ljóst að gagnvart þessum landshlutum þá er ekki verið að beita neinni meðalhófsreglu í þessu tilfelli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert