Sjö smit í Akurskóla

Akurskóli í Reykjanesbæ heldur úti staðnámi fyrir 1.-6. bekk þessa …
Akurskóli í Reykjanesbæ heldur úti staðnámi fyrir 1.-6. bekk þessa stundina, en sjöundi bekkur og allt unglingastig er í fjarnámi heiman frá. Ljósmynd/Akurskóli

Samtals hafa sjö smit af Covid-19 greinst hjá nemendum og starfsliði Akurskóla í Reykjanesbæ í vikunni. Fjögur þeirra bættust við í gær. Tveir þeirra sem greinst hafa eru kennarar, fjórir eru nemendur í sjöunda bekk og einn er nemandi í níunda bekk.

Kórónuveiran virðist vera að stinga sér niður víðar í Reykjanesbæ en hún gerði í fyrstu bylgju faraldursins. Þá greindust varla nokkur smit í skólum en nú greinist fjöldi, ekki aðeins í skólum, heldur líka hjá íþróttafélögunum og í tónlistarskólunum, þar sem starfsemi hefur verið frestað tímabundið vegna smita.

Uggandi yfir stöðunni

Skólastjórinn í Akurskóla, Sigurbjörg Róbertsdóttir, segir að staðan sé ólík því sem var í fyrstu bylgju. „Við erum að sjálfsögðu uggandi yfir þessari stöðu og höfum áhyggjur af bæði nemendum og starfsmönnum sem eru veikir,“ segir Sigurbjörg í samtali við mbl.is.

Að vonum er ráðist í víðtækar aðgerðir til að bregðast við þessum fjölda smita. Allur sjöundi og allur níundi bekkur skólans er í sóttkví, ásamt hálfum tíunda bekk og ellefu kennurum, samtals á annað hundrað manns. Þessi hópur fer allur í skimun á morgun, hinn og á mánudaginn.

Þökk sé hólfun sleppur 1.-6. bekkur við sóttkví og getur áfram mætt í skólann en restin er í fjarnámi að heiman.mbl.is