Spá 25% atvinnuleysi

Unnið var af kappi við gatnagerð í Grindavík, en atvinnuleysi …
Unnið var af kappi við gatnagerð í Grindavík, en atvinnuleysi er nú þegar nær 20% á Suðurnesjum og fer ört vaxandi á næstu mánuðum. mbl.is/Árni Sæberg

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er komið í áður óþekktar hæðir, en spá Vinnumálastofnunar gerir ráð fyrir að í Reykjanesbæ verði það komið í 25% fyrir jólin. Engin dæmi eru um svo mikið atvinnuleysi frá því skipulegar mælingar hófust.

„Þetta er grafalvarleg staða og ég er dauðhrædd við veturinn,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. „Ég vona að stjórnvöld komi til móts við þennan stóra hóp með sértækum aðgerðum. Það hefur nú þegar talsvert verið gert, en það þarf meira til ef atvinnuleysið er að ná þessum hæðum.“

Í skýrslu Vinnumálastofnunar, sem kom út í gær, kemur fram að atvinnuleysi á landinu sé nú talið vera komið yfir 10% og að það muni enn aukast næstu mánuði. Atvinnuleysi í september mældist 9,8%, en af því eru 9,0% almennt atvinnuleysi, en 0,8% tengt minnkuðu starfshlutfalli.

Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkaða starfshlutfallinu jókst alls staðar á landinu, en hvergi í líkingu við það sem gerðist á Suðurnesjum. Þar fór heildaratvinnuleysi úr 18,0% í ágúst í 19,6% í september, en talið er að það fari í 19,8% í þessum mánuði.

Spár Vinnumálastofnunar, sem finna má í gögnum á vef stofnunarinnar, eru þó enn dekkri, því þær segja fyrir um að atvinnuleysi á Suðurnesjum verði komið í 21,9% í desember. Enn bágara verður ástandið þó í Reykjanesbæ, en þar er því spáð að almennt atvinnuleysi verði komið í 24,6% í desember og atvinnuleysi kvenna geti náð allt að 26,5% í jólamánuðinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert