Íslensk rannsókn tengd Covid-19 fær styrk

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild HÍ.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild HÍ. mbl.is/Hanna

Nor­ræna rannsóknarstofnunin, Nor­d­Forsk, hefur styrkt fimm norrænar rannsóknir sem tengjast kórónuveirufaraldrinum. Meðal verkefna sem hlutu styrk er verkefni leitt af Unni Valdimarsdóttur, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands.

Rannsókn Unnar og samstarfsfólks nefnist Þróun geðheilsu í áhættuhópum fimm landa í heimsfaraldri COVID-19. Í henni er ætlunin að bregðast við ákalli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og vísindasamfélagsins um auknar rannsóknir á áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu fólks.

Faraldurinn hefur nú þegar haft áhrif á líkamlega heilsu milljóna manna um allan heim og um leið sett efnahag þjóða úr skorðum en mikilvægt er talið að kanna hvaða langtímaáhrif hann kann að hafa á andlega heilsu.

Rannsóknarhópur undir forystu Unnar hlýtur 150 milljóna króna styrk.

Í fréttatilkynningu kemur fram að verkefnunum sé enn fremur ætlað að auka þekkingu til að ráða niðurlögum kórónuveirufaraldursins.

Rannsakendur frá Norðurlöndunum og Eistlandi taka þátt en alls hefur Nor­d­Forsk lagt til 53 milljónir norskra króna til verkefnisins, jafnvirði um 797 milljóna íslenskra króna.

mbl.is